Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

The Retreat Bláa Lónsins fékk arkitektaverðlaun ársins
Mánudagur 21. október 2019 kl. 09:43

The Retreat Bláa Lónsins fékk arkitektaverðlaun ársins

The Retreat Bláa Lónsins fékk arkitektaverðlaun ársins (Architectural Design of the Year) á hinni alþjóðlegu verðlaunahátíð Architecture MasterPrize en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Guggenheim-safninu í Bilbao á Spáni í síðustu viku.

Architecture MasterPrize (AMP) verðlaunin þykja ein virtustu arkitektaverðlaun heims og eru veitt einstökum verkum sem hafa verið byggð eða reist á síðustu fimm árum. Þau falla í skaut einstaklinga eða hópa sem hafa þótt sýna afburðagæði í arkitektúr, innanhúss- eða landslagshönnun. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar vinna til þessara verðlauna.

Public deli
Public deli

Markmið AMP-verðlaunanna er að vinna að framgangi hágæða arkitektúrs um allan heim og fagna sköpunargáfu og nýsköpun. Dómnefndina skipa margir af leiðandi arkitektum heims.

Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Hlutverk arkitektanna var, í samspili náttúru, arkitektúrs og upplifunar, að skapa stað þar sem gestum finnast þeir vera í beinum tengslum við íslenska náttúru. Byggt í 800 ára gömlu hrauni í hjarta Reykjaness Jarðvangs UNESCO, nær The Retreat að sameina heilsulind, jarðhitalón og 62 herbergja hótel sem hinn einstaki jarðsjór Bláa Lónsins umlykur. Fjársjóður landsvæðisins, hið steinefnaríka vatn, harðgerða hraun og aldagamall mosi – verður þungamiðja allrar byggingarinnar.“

„Það er mikill heiður fólginn í því að vinna þessi virtu og eftirsóttu verðlaun. Við hjá Bláa Lóninu höfum ávallt lagt afar mikla áherslu á hönnun í okkar uppbyggingu enda teljum við að hún skili sér vel í einstakri upplifun gesta okkar,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bjáa Lónsins.

The Retreat er hannað af Basalt arkitektum en innanhúshönnun þess er unnin í samstarfi við Design Group Italia, sem sá einnig um upplifunarhönnunina. Lýsingarhönnuðir eru Liska og verkfræðingar eru Efla verkfræðistofa

„Það er mikil viðurkenning fyrir Basalt arkitekta að hljóta þessi verðlaun. Metnaður Bláa Lónsins hvað varðar vandaða hönnun er grunnurinn að farsælli þróun ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við erum þakklát öllum öðrum hönnuðum sem hafa unnið að þessu verkefni með okkur. Ég lít svo á að þessi verðlaun séu okkar allra,“ segir Hrólfur Karl Cela, einn eigenda Basalt arkitekta.

The Retreat hefur unnið til á þriðja tug alþjóðlegra verðlauna frá því að það opnaði á páskadag í fyrra þar á meðal hin þekktu Red Dot-verðlaunin sem það hlaut í sumar.