Fréttir

Tækifæri hljóta að snúa að sölu verksmiðjunnar til niðurrifs
Sunnudagur 14. nóvember 2021 kl. 08:49

Tækifæri hljóta að snúa að sölu verksmiðjunnar til niðurrifs

– mikil óvissa ríkir um framtíð kísilverksmiðju Stakksbergs

Á yfirstandandi ári hafa línur skýrst hvað varðar stóriðjuáform í Helguvík. Nú er ljóst að hvorki verður af kísilveri Thorsil né fyrirhuguðu álveri Norðuráls og mikil óvissa ríkir um framtíð kísilverksmiðju Stakksbergs, sem eigandinn, Arion banki, er að reyna selja. Á þessari stundu er ekki vitað hvort kaupandi finnist en öllum má vera ljóst að lítill áhugi er á meðal bæjaryfirvalda og íbúa að hún verði endurræst á núverandi stað. Tækifæri eigandans hljóta því að snúa að sölu verksmiðjunar til niðurrifs og uppsetningar annars staðar, annað hvort hér á landi eða erlendis. Þetta sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2022 til 2025, sem fram fór í síðustu viku.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Á móti kemur að mjög margt jákvætt er framundan í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Má þar m.a. nefna miklar framkvæmdir á næstu árum á vegum ISAVIA í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þéttingu byggðar á Ásbrú, áframhaldandi uppbyggingu Hlíðarhverfis, áform Samherja um uppbyggingu laxeldis á landi á Reykjanesi, uppbyggingu ferðaþjónustu og hótela, m.a. Marriott og væntanlega fleiri fyrirtækja sem eru eða munu verða innan nærsvæðis Keflavíkurflugvallar sem til stendur að skipuleggja og byggja upp undir merkjum þess sem kallað er „Airport City“. Áframhaldandi uppbygging bílaleiga og annarrar flugtengdrar starfsemi og þjónustu í sérstöku hverfi við Reykjanesbraut efst í bænum, í daglegu tali nefnt Flugvellir. Þá má nefna áform Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur um nýja og stærri þurrkví og uppbyggingu Reykjaneshafnar í Njarðvíkurhöfn, nýtt hjúkrunarheimili, nýja heilsugæslustöð, áform World Class um uppbyggingu á Fitjum og svo mætti áfram lengi telja,“ sagði Kjartan en þessum verkefnum og fleirum verða gerð betri skil á sérstöku framkvæmdaþingi sem ráðgert er að boða til fimmtudaginn 25. nóvember næstkomandi á vegum atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar.