ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Fréttir

Svona verður samstarf og áherslur D- og B-lista í Suðurnesjabæ
Þriðjudagur 7. júní 2022 kl. 21:47

Svona verður samstarf og áherslur D- og B-lista í Suðurnesjabæ

Fyrsti bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar fór fram 1. júní sl. Á fundinum var kynnt samstarf og áherslur B- og D-lista sem mynda meirihluta bæjarstjórnar.

D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og B-listi Framsóknarflokksins hafa komist að samkomulagi um samstarf á komandi kjörtímabili 2022-2026. Samstarfið mun byggja á stefnuskrám beggja framboðslista. Lögð verður áhersla á gott samstarf allra kjörinna fulltrúa, starfsmanna sveitarfélagsins og bæjarbúa.

Sérstaklega verður áhersla lögð á eftirtalin atriði um leið og stefnuskrár beggja lista liggja til grundvallar.

Fjármál og stjórnsýsla

Fjármálastjórnun verður ábyrg og fjárfestingar munu taka mið af getu sveitarfélagsins.

Álögum á íbúa og fyrirtæki verður haldið í lágmarki í takt við fjárhagsgetu sveitarfélagsins.

Stjórnsýslan verður gerð opnari og skilvirkari, þar sem rafræn þjónusta verður megináherslan. Auka skal virkni á heimasíðu sveitarfélagsins með aukinni upplýsingagjöf um stöðu málaflokka.

Fundir bæjarstjórnar verði í beinu streymi og aðgengilegir á netinu eftir fundi.

Fundargerðir verði gerðar meira upplýsandi fyrir íbúa og aukið aðgengi að opinberum gögnum sem lögð eru fyrir bæjarstjórn.

Þjónusta og aðstoð við íbúa sem ekki geta nýtt sér rafrænar þjónustu verður aukin og gerð skilvirkari. Þá verður komið á fót skilvirku ferli þar sem starfsmaður tekur við athugasemdum og spurningum íbúa.

Staðinn verður vörður um hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess gagnvart ríki og öðrum aðilum sem því tengjast. Þess verður gætt að rödd íbúa verði sterk og heyrist víða.

Velferðarmál

Áfram verði unnið að því að tryggja íbúum sveitarfélagsins heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Sótt verði á ríkisvaldið um uppbyggingu hjúkrunarheimilis í sveitarfélaginu með samþættingu við dagdvöl, heimaþjónustu og önnur búsetuúrræði fyrir aldraða í heimabyggð. Jafnframt verði sótt um fjölgun á dagdvalarrýmum.

Þjónusta við eldri borgara þróist í takt við þá kröfu að aldraðir geti sem lengst verið á eigin heimili. Tryggja þarf áfram góða heimaþjónustu og aðgengi eldri borgara að heilsurækt.

Leita leiða til að auka búsetuúrræði fyrir aldraða, t.d. með fjölgun á þjónustuíbúðum.

Efla og kynna vel félagsstarf og heilsueflingu fyrir eldri borgara og öryrkja.

Auka búsetuúrræði fyrir fatlaða í heimabyggð með byggingu á nýjum búsetukjarna.

Tómstundastarf fyrir börn með sérþarfir verði aukið.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði innleiddur og Suðurnesjabær verði þar með barnvænt sveitarfélag.

Fræðslumál

Nýr leikskóli í Sandgerði verði opnaður og rekstur hans boðinn út.

Tryggja skal öllum börnum leikskólapláss við 18 mánaða aldur og opnaðar verði amk tvær ungbarnadeildir.

Stefnt verður að byggingu nýs leikskóla í Garði á seinni hluta kjörtímabils, þar sem fjölgun barna í sveitarfélaginu kallar á fjölgun leikskólaplássa.

Áfram verði stutt við öfluga starfsemi grunnskólanna og efld verði sérfræðiþekking innan fræðslusviðs sveitarfélagsins.

Greining verði gerð á lækkun á kostnaði við skólamáltíðir grunnskólabarna. Niðurgreiðsla skólamáltíða verði aukin í þrepum og unnið markvisst að því að í lok kjörtímabilsins verði skólamáltíð gjaldfrjáls.

Áfram verði stutt við hið góða starf sem unnið er í tónlistaskólum sveitarfélagsins.

Komið verði upp námskeiðs úrræði sem börn geta sótt yfir sumartímann á lokunartíma leikskóla bæjarfélagsins.

Komið verðu upp aðstöðu fyrir fræðslu- og menningarsetur fyrir eldri en 16 ára til að stunda nám og tómstundir.

Íþróttir, tómstundir og forvarnir

Bæta skal aðstöðu til íþróttaiðkunar með byggingu gervigrasvallar þar sem horft verði til framtíðar við hönnun hans og gert verði ráð fyrir að hægt verði að byggja yfir hann síðar.

Áfram verður vel stutt við íþrótta- og tómstundastarf í sveitarfélaginu og stuðlað verði að fjölbreytileika í tómstundum.

Hvatastyrkir fyrir börn til 18 ára aldurs verði hækkaðir á kjörtímabilinu. Jafnframt verði skoðaðar útfærslur á að greitt sé eitt tómstundagjald á barn í sveitarfélaginu í stað þess að greitt sé fyrir hverja íþróttagrein.

Hvetja til samvinnu íþróttafélaganna við stofnun nýrra deilda, t.d. rafíþróttadeild.

Komið verði á frístundarbíl til að efla og auka möguleika barna í sveitarfélaginu á íþrótta- og tómstundaiðju.

Auka samstarf við Ungmennaráð um málefni sveitarfélagsins.

Ferða- safna og menningarmál

Auka fjölbreytni í lista- og menningarlífi með menningarviku og/eða myndlistar-, tónlistar- og íþróttarhátíðar.

Gerð verði ný úttekt á kostnaði við lagfæringar á Samkomuhúsinu í Garði þar sem horft verði til þess að húsinu verði fundin not fyrir menningu og listir.

Byggðasafnið á Garðskaga standi vörð um sögu byggðakjarnanna og geri henni góð skil. Auka og bæta skal merkingar í sveitarfélaginu þ.m.t. minja og söguskilti.

Umhverfi Garðskaga verði lagað og aðstaða fyrir ferðamenn bætt.

Skapaðir verði jákvæðir hvatar fyrir aðila í ferðaþjónustu.

Efla samstarf sveitarfélagsins við Þekkingarseturs Suðurnesja og Náttúrustofu Suðvesturlands.

Skipulagsmál

Tryggt verði nægt lóðaframboð til að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaðnum og hugað verði sérstaklega að þörfum fyrir minni íbúðir.

Fjölga og bæta leiksvæði, bæði við skóla sem og á opnu svæði. Byggja upp og klára ókláraða stíga, auk þess að fjölga bekkjum og ruslatunnum.

Haldið verði áfram með göngu- og hjólreiðastíga að Reykjanesbæ og að flugstöðinni.

Átak verði gert í lagfæringum á yfirborði gatna og gangstétta.

Aðgengi við stofnanir sveitarfélagsins verði bætt og unnið verði að nýrri Umferðaröryggisáætlun.

Í samstarfi við Vegagerðina þarf að tryggja breikkun vegarins milli byggðakjarnanna og að lokaáfangi Strandgötu verði kláraður.

Umhverfismál

Auka vitund íbúa um flokkun sorps og fjölga hreinsunardögum í sveitarfélaginu. Suðurnesjabær á að vera leiðandi í umhverfismálum og sýna gott fordæmi. Áminning og hvatning um snyrtilegt umhverfi á að koma reglulega frá sveitarfélaginu.

Komið verði á fót umhverfisráði áhugasamra íbúa sem geti með aðstoð umhverfisfulltrúa verið ráðgefandi og skapað jákvæða ímynd þess átaks að bærinn verði snyrtilegur.

Hreinsun standlengjunnar í samstarfi við hin ýmsu félagasamtök verði áfram unnin.

Áætlun um fráveitumál verði kláruð og tímasett og þá verði byrjað á stórum endurbótum.

Fegrun byggðarkjarnanna verði í hávegum höfð og aukin gróðursetning verði í sveitarfélaginu í samstarfi við skógrækt ríkisins og aðra aðila. Skilgreind verði svæði fyrir trjárækt með kolefnisjöfnun að leiðarljósi.

Unnið verði að fjölgun á hleðslustöðvum í Suðurnesjabæ í samvinnu við aðila á þeim markaði.

Atvinnumál

Stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu með markaðssetningu á sveitarfélaginu og kostum þess að búa í fjölskylduvænu umhverfi.

Styðja við aðila á sviði nýsköpunar- og sprotafyrirtækja og tryggja nægt lóðaframboð fyrir atvinnustarfsemi.

Leitað verði leiða til að bæta almenningssamgöngur svo þær verði kostur fyrir íbúa að sækja vinnu út fyrir þéttbýlið og fyrir aðila í ferðaþjónustu.

Sandgerðishöfn verði fjárhagslega sjálfbær og þjónustustig hafnarinnar verði bætt þar sem þarfir sjómanna og útgerðarmanna verði hafðar að leiðarljósi.


O- listi lagði fram eftirfarandi bókun:

O-listinn hefur, bæði fyrir og eftir kosningar, kallað eftir heildrænu samstarfi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar en ekki fengið viðbrögð við því ákalli frá öðrum flokkum. Því vilja fulltrúar listans benda á að sá meirihluti sem myndaður hefur verið í upphafi kjörtímabils hefur í raun minnihluta atkvæða á bak við sig eða samanlagt 48,4%. Við teljum að með þessu sé farið á mis við tækifæri í málefnalegri samvinnu sem hefði getað skapað betri stjórnun með yfirsýn og meiri og jafnari ábyrgð bæjarfulltrúa. Þar sem niðurstöður kosninga sýna að lítill munur er á milli fylgi flokka teljum við eðlilegt að stuðla að slíkri samvinnu.

Í ljósi þess kallar O-listinn enn og aftur eftir samstarfi um málefni sveitarfélagsis og hvetur bæjarfulltrúa til þess að sýna í verki að seta í bæjarstjórn snúist fyrst og fremst um verkefni sem eru sveitarfélaginu og íbúum til framdráttar, frekar en meirihluta, völd eða embætti. Fulltrúar O-listans kalla eftir því að haldnir verði reglulegir málefnafundir bæjarstjórnar þar sem unnið er sameiginlega að áherslum, sveitarfélaginu til framdráttar.