Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Sundhöll Keflavíkur með hátt varðveislugildi verður rifin
Miðvikudagur 22. ágúst 2018 kl. 10:36

Sundhöll Keflavíkur með hátt varðveislugildi verður rifin

- Niðurstaða húsafriðunarnefndar er kæranleg til æðra stjórnvalds

Húsafriðunarnefnd hefur komist að niðurstöðu varðandi framtíð Sundhallar Keflavíkur. Minjastofnun Íslands hafði óskað eftir sjálfstæðu mati nefndarinnar á varðveislugildi Sundhallarinnar við Framnesveg 9 í Keflavík. „Þrátt fyrir að nefndin telji Sundhöll Keflavíkur hafa hátt varðveislugildi vegna menningarsögu þá nægir heildarniðurstaða varðveislumats ekki til þess að húsafriðunarnefnd geti mælt með því við Minjastofnun Íslands að hún eigi frumkvæði að friðlýsingu mannvirkisins,“ segir í bókun húsafriðunarnefndar.
 
Halldór Ragnarsson hjá Húsanesi, sem er eigandi gömlu sundhallarinnar við Framnesveg, segir að næstu skref í málinu séu að ljúka hönnun þeirra mannvirkja sem eigi að rísa á lóðinni. Hann segir að nú þegar hafi orðið níu mánaða tafir á verkinu og ljóst að framkvæmdir hefjist ekki fyrr en næsta vor. Með niðurstöðu húsafriðunarnefndar eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að rífa bygginguna. Ekkert hafi þó verið ákveðið hvenær það verði gert.
 
Minjastofnun fól Hjörleifi Stefánssyni arkitekt að leggja rökstutt mat á varðveislugildi Sundhallar Keflavíkur. Hann skilaði stofnuninni skýrslu í júlí þar sem hann komst að svohljóðandi niðurstöðu: „Með hliðsjón af byggingarlist hússins og menningarsögu þess sem rökstutt er hér að ofan og þrátt fyrir takmarkað umhverfisgildi og slakt tæknilegt ástand hefur Sundhöll Keflavíkur hátt varðveislugildi“.
Húsafriðunarnefnd fundaði 13. ágúst sl. og þar var skýrsla Hjörleifs til umfjöllunar.
 
Álit húsafriðunarnefndar til Minjastofnunar kemur fram í eftirfarandi bókun:
 
„Húsafriðunarnefnd er sammála niðurstöðu Hjörleifs Stefánssonar um að Sundhöll Keflavíkur hafi hátt menningarsögulegt gildi fyrir samfélagið í Keflavík. Að mati nefndarinnar bera sveitarfélög skyldur gagnvart varðveislu menningararfsins í nærumhverfi sínu. Fyrir liggur að hvorki er vilji né áhugi að hálfu Reykjanesbæjar og húseiganda til að stuðla að varðveislu hússins. Húsafriðunarnefnd lýsir miklum vonbrigðum með framgöngu Reykjanesbæjar í þessu máli þar sem lítillar viðleitni hefur gætt til þess að finna flöt á því að varðveita mannvirkið í samráði við eigendur þess og hollvinasamtök. Önnur sveitarfélög, svo sem Akranes og Seyðisfjörður, hafa sýnt metnað til að tryggja varðveislu sambærilegra sundlaugarmannvirkja og hafa áform um að gera þeim til góða með hliðsjón af upphaflegri gerð. Þrátt fyrir að nefndin telji Sundhöll Keflavíkur hafa hátt varðveislugildi vegna menningarsögu þá nægir heildarniðurstaða varðveislumats ekki til þess að húsafriðunarnefnd geti mælt með því við Minjastofnun Íslands að hún eigi frumkvæði að friðlýsingu mannvirkisins“.
 
Ragnheiður Elín Árnadóttir fer fyrir hollvinasamtökum Sundhallar Keflavíkur. Hún átti fund með Minjastofnun um málið sl. þriðjudag. Hún sagði í samtali við Víkurfréttir að hollvinir Sundhallar Keflavíkur hefðu ekki sagt sitt síðasta orð í málinu og því væri ekki lokið þrátt fyrir þessa niðurstöðu nefndarinnar, sem er kæranleg til æðra stjórnvalds.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024