Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Suðurnesjabátar mokveiða við Þjórsá
Maron GK.
Föstudagur 8. febrúar 2019 kl. 06:00

Suðurnesjabátar mokveiða við Þjórsá

Janúarmánuði er lokið og var hann nokkuð góður aflalega séð. Veður var með nokkuð góðu móti, sérstaklega seinni hluta mánaðar. Engin mokveiði var hjá bátunum, frekar nokkuð jöfn og góð veiði.

Netabátarnir voru þó að fiska vel og voru flestir þeirra á veiðum skammt utan við Sandgerði, undan Stafnesi og Sandvík.  Erling KE var með 192 tonn í 19 róðrum. Grímsnes GK 99 tonn í 16. Maron GK 77 tonn í 25 róðrum. Halldór Afi GK 37 tonn í 20. Hraunsvík GK 26 tonn í 14, landað í Grindavík. Þá var Bergvík GK 70 tonn í 15 róðrum.

Þá fáu daga sem eru liðnir af febrúar hafa allir netabátarnir og bátarnir sem Hólmgrímur gerir út landað í Sandgerði. Það er mikið ánægjuefni þrátt fyrir að Suðurgarður hafnarinnar sé ekki orðin klár. Grímsnes GK er komið með 29 tonn í aðeins 2 róðrum. Maron GK 14 tonn í 2. Halldór Afi GK 4,5 tonn í 2.  

Hjá línubátunum kom smá skot eftir að þeir fréttu af mokveiði hjá Jóni Ásbjörnssyni RE, sem er um 19 tonna bátur, sem var að mokveiða á svæði frá Þjórsá og austur úr. Hann landaði í Þorlákshöfn, alls 88 tonnum í aðeins 7 róðrum og var mest með 16,2 tonn í einni löndun.

Nokkrir bátar frá Suðurnesjum fóru á þessar slóðir. Sævík GK kom þangað fyrst og landaði í Þorlákshöfn um 13 tonnum sem fengust á 10 þúsund króka. Það samsvarar um 560 kílóum á bala, sem er mokveiði. Von GK, sem rær frá Sandgerði, fór í ansi mikið ferðalag því hún sigldi frá Sandgerði og alla leið þangað austur og tók siglingin um 8 klukkutíma og aflinn var 10 tonn.

Stærri línubátarnir fóru líka á sömu slóðir, eins og t.d. Valdimar GK, Hrafn GK og Kristín GK.

Fyrst talið berst að stærri línubátunum þá er rétt að líta á aflatölur hjá þeim í janúar. Jóhanna Gísladóttir GK var með 386 tonn í 4 róðrum, Sturla GK 378 tonn í fimm, Sighvatur GK 370 tonn í 3 og þar af 141 tonn í einni löndun sem er stærsta löndun bátsins frá því hann kom til landsins eftir endurbyggingu í Póllandi. Páll Jónsson GK 363 tonn í fjórum  Hrafn GK 362 tonn í fimm og það má geta þess að einungis munaði um 90 kílóum á milli aflans hjá Páli og Hrafni. Fjölnir GK 361 tonn í sex, Kristín GK 313 tonn í fjórum, Valdimar GK 277 tonn í 5 róðrum. Þess má geta að allir þessir bátar lönduðu hluta eða öllum afla sínum í Grindavík.

Einhamar ehf. í Grindavík gerir út þrjá báta, Véstein GK,  Auði Vésteins SU og Gísla Súrsson GK. Gísli Súrsson GK er eini báturinn frá Einhamri sem er kominn suður til veiða og var með 130 tonn í 18 róðrum í janúar. Af þeim afla var um 20 tonnum landað í Grindavík.  

Á árum áður var oft talað um það að fara suður á vertíð. Þá þýddi það að mjög margir bátar frá t.d. Norðurlandi og Austfjörðum kæmu suður á vetrarvertíð og réru þá frá Grindavík, Sandgerði eða Keflavík á vertíð.

Því skýtur það skökku við að Stakkavík ehf. í Grindavík ákvað að senda línubátinn sinn, Óla á Stað GK, í burtu af svæðinu og norður til Siglufjarðar. Óli á Stað GK var að mestu búinn að vera á veiðum skammt utan við Sandgerði og landaði að mestu þar og var með 133 tonn í 23 róðrum. Afhverju senda bátinn í burtu? Jú, ástæðan er sú að þorskurinn sem er á miðunum utan við Sandgerði er allur mjög stór eða yfirleitt 7 kíló og yfir í meðalvigt og Stakkavík sendir Óla á Stað GK norður til þess að komast í minni fisk, en þorskurinn fyrir norðan er yfirleitt núna á þessum tíma á bilinu 3 til 5 kíló að stærð og passar betur í flökunarvélarnar.  

Febrúar er hafinn og þá gerist það að handfærabátum fjölgar á miðunum. Eins og undanfarin ár er Sandgerði ansi stór löndunarhöfn í þeim þætti og má geta þess að handfærabáturinn Fiskines KE byrjaði árið 2019 feikilega vel á handfærum, því að báturinn kom með 2,3 tonn í land í sínum fyrsta róðri.

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs