Fréttir

Strönduðu eftir sjósetningu í Njarðvík
Laugardagur 24. október 2020 kl. 16:17

Strönduðu eftir sjósetningu í Njarðvík

Fyrsta sjóferð skútunnar Lóu frá Njarðvík fór ekki eins og á var kosið í dag. Þegar draga átti skútuna sjóleiðina frá athafnasvæði Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur nú síðdegis varð það óhapp að fiskibáturinn Elli Jóns ÍS fékk dráttartógið í skrúfuna og rak upp í stórgrýtta fjöru.

Skútan Lóa rak í kjölfarið og tók niðri skammt frá landi. Þar sat hún föst en áhafnarmeðlimir höfðu kastan ankeri til að tryggja að skútuna myndi ekki reka lengra eða leggjast undan veðrinu.

Public deli
Public deli

Lögregla, björgunarsveit og sjúkralið voru kölluð til og var mikill viðbúnaður á vettvangi. Björgunarsveitin Suðurnes kom böndum á skútuna og var hún dregin inn í höfnina í Njarðvík. Hafnsögubáturinn Auðunn var jafnframt kallaður út og var hann notaður til að draga Ella Jóns ÍS af strandstað í stórgrýtinu. Honum var jafnframt komið að bryggju í Njarðvík þar sem skemmdir verða kannaðar en báturinn barðist nokkuð í grjótinu áður en honum var bjargað.

Engin slys urðu á fólki en mönnum var að vonum brugðið yfir atburðunum sem gerðust hratt.

Skútan Lóa hefur verið í smíðum við Klapparstíg í Njarðvík í hartnær fjóra áratugi. Hún var dregin af smíðastað í morgun og sett á sérstakan vagn skipasmíðastöðvarinnar og svo sjósett í hádeginu.

Stefnt er að því að skútan fari fljótlega til Reykjavíkur en hún hefur fengið pláss í höfn Snarfara í Reykjavík í vetur.

Menn höfðu það á orði við Njarðvíkurhöfn í dag að fall væri fararheill og þökkuðu fyrir að ekki fór verr en raunin varð.

Björgunarsveitarmenn koma böndum á skútuna Lóu skammt frá landi. Þarna hafði hún tekið niður en hæll skútunnar ristir 180 sm.

Byrjað að draga Lóu til Njarðvíkurhafnar.

Hafnsögubáturinn Auðunn kemur á vettvang til að draga Ella Jóns ÍS af strandstað.

Elli Jóns ÍS í stórgrýttri fjörunni.