Nettó
Nettó

Fréttir

Stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur
Frá fundi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar. VF-mynd: hilmarbragi
Mánudagur 8. apríl 2019 kl. 10:34

Stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur

„Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar harmar þá niðurstöðu að WOW air hafi hætt starfsemi. Þó svo ekki liggi fyrir hver verði bein áhrif á Suðurnesjabæ og íbúa sveitarfélagsins, þá má reikna með að þau verði nokkur. Einnig má reikna með að þessi staða muni hafa töluverð áhrif á samfélagið á Suðurnesjum og landinu öllu,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar frá síðustu viku þar sem samdráttur á Keflavíkurflugvelli vegna gjaldþrots flugfélagsins WOW air var til umræðu. 
 
Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjölmörg þjónustufyrirtæki á flugstöðvarsvæðinu eru staðsett í Suðurnesjabæ og fjöldi íbúa hefur starfað þar. Bæjarstjórn beinir því til allra hlutaðeigandi að hugað sé að velferð og hagsmunum allra þeirra sem stöðvun starfsemi WOW air hefur áhrif á, hvort sem um er að ræða starfsfólk og fjölskyldur þeirra eða fyrirtæki.
 
„Bæjarstjórn færir öllum þeim aðilum sem hafa brugðist við málinu þakkir fyrir þeirra störf. Sérstakar þakkir færir bæjarstjórn bæjarstjóra Suðurnesjabæjar sem hefur reglulega upplýst bæjarstjórn um framgang mála. Einnig stjórnendum og starfsfólki Suðurnesjabæjar sem hafa frá fyrsta degi brugðist við og undirbúið viðbrögð og aðgerðir sem kann að þurfa að grípa til eftir því sem mál þróast,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar.
 
Bæjarstjórn lýsir ánægju með skjót viðbrögð stjórnvalda og stofnana þeirra sem frá fyrsta degi hafa verið í sambandi og samskiptum við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum. Bæjarstjórn væntir þess að stjórnvöld geri það sem í þeirra valdi stendur til að bregðast við þeim afleiðingum sem kunna að koma í ljós á næstu vikum og mánuðum.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs