Fréttir

Starfsemi Landhelgisgæslunnar mikil innspýting fyrir samfélagið á Suðurnesjum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 14. mars 2020 kl. 08:00

Starfsemi Landhelgisgæslunnar mikil innspýting fyrir samfélagið á Suðurnesjum

Starfsemi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli fylgir mikil innspýting fyrir samfélagið á Suðurnesjum. Landhelgisgæslan kaupir mikið af þjónustu á Suðurnesjum fyrir starfsemi sína á Keflavíkurflugvelli. Sérstaklega eru loftrýmisgæsluverkefnin, sem eru þrisvar til fjórum sinnum á ári, drjúg fyrir heimamenn en kostnaður við hvert loftrýmisgæsluverkefni hleypur á hundruðum milljóna og er greiddur af Atlantshafsbandalaginu. Framundan er stór æfing sem bandaríski flugherinn stendur að.

Þegar viðtalið við Jón var tekið í síðustu viku var von á um eitt þúsund þátttakendum til Reykjanesbæjar um miðjan apríl og höfðu verið bókuð hátt í eitt þúsund hótelherbergi á Suðurnesjum vegna þessa, auk mikils fjölda bílaleigubíla og fleira. Þessi áform hafa tekið breytingum en búið er að fresta æfingunni Norðurvíkingi 2020.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Víkurfréttir ræddu við Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóra Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, en gæslan er tengiliður Íslands við NATÓ-þjóðirnar sem hingað koma og heldur utan um þessi verkefni. Landhelgisgæslan fer með framkvæmd varnarmála fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslan er í dag mjög virkur þátttakandi í framkvæmd t.a.m. loftrýmisgæslunnar.

Norðmenn gæta loftrýmis

Norðmenn eru nú með eina dýrustu orrustuþotu heims á Keflavíkurflugvelli en þeir eru á landinu þessa dagana og sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins. Fjórar vélar eru í Keflavík og kostar hver vél um tólf til fimmtán milljarða króna.

Það er óhætt að segja að það sé komið líf á ný í gömlu herstöðina á Keflavíkurflugvelli en Bandaríkjaher flutti frá landinu með manni og mús árið 2006 eftir rúmlega fimmtíu ára veru.

NATÓ-þjóðir skiptast á að sinna loftrýmisgæslu reglulega með tilheyrandi umsvifum á Vellinum og Suðurnesjum en talsverður fjöldi tekur þátt í þessum æfingum.
„Loftrýmisgæslan er haldin þrisvar til fjórum sinnum á ári og flugsveitirnar sem koma eru að lágmarki í fjórar vikur og sumir lengur. Á síðasta ári, 2019, og í ár er verkefnið fjórum sinnum hvort ár. Fram til þessa hafa tíu þjóðir Atlantshafsbandalagsins tekið þátt í verkefninu en í ár bætist ellefta þjóðin við þegar Pólland tekur að sér loftrýmisgæslu. Þátttökuþjóðirnar koma með frá 100 og upp í 300 manns hverju sinni.

Þessu til viðbótar er hér fjöldinn allur af öðrum verkefnum. Bandaríski sjóherinn er hér svo til alla daga ársins og rekur hér stjórnstöð fyrir kafbátaeftirlitið. Hér eru kafbátaleitarvélar staðsettar og ýmis verkefni í gangi þannig að hér eru að jafnaði aldrei færri en 100 manns á svæðinu.“


Sýna getu Atlantshafsbandalagsins

– Eru þetta sambærileg verkefni sem allar þjóðirnar sinna þegar þær koma hingað?
„Allar þjóðirnar eru að sinna loftrýmisgæslu en við sinnum loftrýmiseftirliti fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins. Það er framkvæmt í öllum ríkjum bandalagsins alla daga ársins, nema hér á landi þar sem það er gert tímabundið. Það er gert til að sýna getu Atlantshafsbandalagsins. Verkefnið snýst um loftrýmisgæslu en flugsveitirnar nota tímann til æfinga því flugmennirnir þurfa að æfa á hverjum degi til að vera hæfir í verkefnið. Flest flugin sem eru farin eru æfingaflug, hins vegar er nokkrum sinnum á ári sem flogið er á móti óauðkenndum eða óþekktum flugvélum hér í loftrýminu.“

Loftrýmisgæsluverkefnið byrjaði í maí 2008 með samkomulagi milli íslenskra stjórnvalda og Atlantshafsbandalagsins og það var franski flugherinn kom hingað með flugsveit fyrstur þjóða.

Aðstaða til að taka á móti flugsveitunum er með ágætum. Á Keflavíkurflugvelli eru þrettán flugskýli fyrir herþotur. Þá er stórt flugskýli, skýli 831, þar sem er aðstaða fyrir stærri vélar og er notað fyrir kafbátaeftirlitið. Einnig er gistiaðstaða innan vallar fyrir 200 manns. Að sögn Jóns B. Guðnasonar er verið að fara í uppbyggingu á frekari gistiaðstöðu á svæði Landhelgisgæslunnar og innan fárra ára á að vera komin þar gistiaðstaða fyrir 500 manns.

„Þessu til viðbótar erum við með frá örfáum hótelherbergjum og upp í nokkur hundruð herbergi á leigu á hverjum tíma. Núna í apríl næstkomandi er búið að bóka á okkar vegum hátt í 1.000 hótelherbergi á svæðinu vegna Norðurvíkings 2020,“ segir Jón.

Landhelgisgæslan með rúmlega 50 starfsmenn á Keflavíkurflugvelli

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru rúmlega 50 á Keflavíkurflugvelli en alls starfa rúmlega 200 manns hjá Landhelgisgæslunni. Að auki er fjöldi verktaka sem starfa fyrir Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvelli. Verktakar sjá um mötuneyti, þrif, öryggisgæslu, viðhald og ýmis önnur verkefni. „Þessir aðilar sem eru hér á svæðinu eru að kaupa ýmiss konar þjónustu, eins og bílaleigubíla, hótel, mat og afþreyingu. Ef þú ferð í Sporthúsið þá sérðu nær örugglega alla daga einhverja frá okkur.“

– Starfsemi ykkar hér er örugglega töluverð búbót fyrir svæðið?
„Það hlýtur að vera það. Að senda flugsveit til Íslands kostar fleiri hundruð milljónir.“

– Er að verða meiri starfsemi hér?
„Loftrýmisgæslan hefur verið nokkuð stöðug, þetta þrisvar til fjórum sinnum á ári. Frá árinu 2014 hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn verið hérna með kafbátaeftirlitsvélar og það verkefni hefur verið að vaxa og verður í fastari skorðum til framtíðar. Starfsemin hefur verið að aukast jafnt og þétt frá 2014 og mun gera það næstu árin líka. Bandaríska varnarmálaráðuneytið er að fjárfesta hér nokkuð í viðhaldi á mannvirkjum, viðhaldi á flugskýli, byggingu þvottastöðvar fyrir kafbátaleitarflugvélar, þeir eru að vinna að framkvæmdum á vestursvæði Keflavíkurflugvallar, laga flugbrautir, setja upp olíugildrur á flughlöðin og ýmis verkefni sem verða til að bæta aðstöðuna hér og auka aðgengi og létta okkur lífið líka.“



Breytt heimsmynd eftir árið 2014

– Hvers vegna er þetta? Vilja Bandaríkjamenn tryggja stöðu sína hér enn frekar?

„Það er breytt heimsmynd frá 2014 sem þetta er að endurspegla fyrst og fremst. Það sem er breytt frá því Varnarliðið var hér er að allur þessi herafli er mjög færanlegur og sveigjanlegur. Hann þarf ekki lengur með sér fjölskyldur, hann þarf ekki mötuneyti eða presta þannig að allt umfang og fjöldi er miklu minni nú en var áður.“

Norðmenn hafa vaktið athygli með sínar F-35 orrustuþotur sem þeir sinna nú loftrýmisgæslu með frá Keflavíkurflugvelli. Norski flugherinn er með fjórar slíkar þotur hér á á landi en hver þota kostar á bilinu tólf til fimmtán milljarða króna sem gerir hana að einni dýrustu orrustuþotu heims. Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem F-35 kemur til Keflavíkurflugvallar því Ítalir voru með þær í Keflavík síðasta haust.

Norðmennirnir eru ekki eina þjóðin sem er við gæslustörf núna því Kanadamenn hafa sett upp færanlega ratsjá á Miðnesheiði sem verður starfrækt fram til loka júlímánaðar á meðan unnið er að viðhaldi á ratsjánni sem fyrir er á heiðinni. Það verkefni er að mestu leyti greitt af Atlantshafsbandalaginu.



Norðurvíkingur 2020

Þegar Norðmenn hafa lokið loftrýmisgæslunni er risavaxið verkefni framundan á Keflavíkurflugvelli, því strax eftir páska verður haldin stór æfing á vegum bandaríska flughersins sem byggir á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, Norðurvíkingur 2020.

„Það er reiknað með allt að 1.000 þátttakendum frá aðildarþjóðum Atlantshafsbandalagsins en að mestu verða þetta Bandaríkjamenn. Við vorum með æfingu hér í febrúar til að undirbúa æfinguna en þá voru hér um 300 manns á svæðinu. Hér verður í tvær vikur, strax eftir páska, margt fólk og flest hótelin í Reykjanesbæ eru bókuð undir þetta verkefni,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, í samtali við Víkurfréttir.