Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Sprengjusérfræðingar æfa á Keflavíkurflugvelli
Mánudagur 7. september 2020 kl. 13:50

Sprengjusérfræðingar æfa á Keflavíkurflugvelli

Northern Challenge, árleg æfing sprengjusérfræðinga, hófst á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli um helgina og stendur fram í næstu viku. Um er að ræða alþjóðlega æfingu Atlantshafsbandalagsins sem Landhelgisgæslan hefur veg og vanda af. Vegna kórónuveirufaraldursins er æfingin smærri í sniðum að þessu sinni og fer að öllu leyti fram innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Þetta er í tuttugasta sinn sem æfingin er haldin hér á landi.

Markmið æfingarinnar er að æfa viðbrögð við hryðjuverkum og er sérstök áhersla lögð á verndun lífa, eigna og sönnunargagna. Samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim er útbúinn og aðstæður hafðar eins raunverulegar og kostur er.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Æfingin veitir sprengjusérfræðingum, sem koma hvaðanæva að úr heiminum, einstakt tækifæri til að samhæfa aðgerðir auk þess að miðla reynslu og þekkingu sinni til annarra liða. Northern Challenge hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hefur skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga í Evrópu.

Að þessu sinni eru 75 þátttakendur á æfingunni frá 7 þjóðum. Ströngum sóttvarnaráðstöfunum og reglum er fylgt meðan á æfingunni stendur. Allir þátttakendur er skimaðir við komu og aftur 5 -6 dögum síðar. Þá er þátttakendum skipt niður í hópa. Svæðinu er skipt í sérstök hólf og samskipti milli hópa eru ekki leyfð. Allir þátttakendur eru í einangrun á öryggissvæðinu og er ekki heimilt að yfirgefa svæðið. Sama gildir um sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar sem taka þátt í æfingunni.