Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Fréttir

Spá fyrir um úrslit alþingiskosninganna í haust
Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir verður því nýr þingmaður sjálfstæðismanna á komandi kjörtímabili.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 23. júlí 2021 kl. 09:57

Spá fyrir um úrslit alþingiskosninganna í haust

Það er ljóst að talsverðar breytingar verða á þingmönnum Suðurkjördæmis gangi kosningaspá Morgunblaðsins og MMR eftir. Að öllum líkindum munu þingflokkarnir halda sínum sætum en þónokkrar breytingar hafa orðið á frambjóðendum þeirra.

Þrír flokkar eiga á hættu að ná ekki sæti á þingi en flokkar þurfa að ná 5% atkvæða á landsvísu til að eiga rétt á sæti á Alþingi. Flokkur fólksins (5,1%), Miðflokkurinn (5,2%) og Sósíalistaflokkur Íslands (5,6%) eru allir mjög tæpir að ná því lágmarki miðað við könnunina.

Líklegir þingmenn Suðurkjördæmis

Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að vera stærstur flokka í kjördæminu. Sjálfstæðismenn fengu þrjá menn kjörna í síðustu kosningum og munu fá jafnmarga nú. Páll Magnússon, sem leiddi listann þá, gaf ekki kost á sér og nýr oddviti sjálfstæðismanna, Guðrún Hafsteinsdóttir, tekur sæti hans. Þá halda þeir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason sætum sínum.

Viðreisn
Viðreisn

Sigurður Ingi Jóhannsson leiðir sem fyrr lista Framsóknarflokks sem fékk tvo þingmenn kjörna 2017, Sigurð Inga og Suðurnesjakonuna Silju Dögg Gunnarsdóttir. Silja þáði ekki sæti á lista í ár eftir að hafa hafnað í þriðja sæti prófkjörs Framsóknarflokksins og Jóhann Friðrik Friðriksson tekur hennar sæti á Alþingi.

Miðflokkurinn á nú tvo menn á þingi en Birgir Þórarinsson og Karl Gauti Hjaltason eru þingmenn hans. Miðflokkurinn fékk einn mann kjörinn 2017 en Karl Gauti komst á þing fyrir hönd Flokks fólksins, hann færði sig svo yfir í Miðflokkinn eftir Klaustursmálið svokallaða.

Miðflokkurinn mun líklega fá einn mann kjörinn og það yrði þá Birgir Þórarinsson, oddviti Miðflokksmanna.

Eins og fyrr segir fékk Flokkur fólksins einn mann kjörinn síðast, Karl Gauta Hjaltason. Ásthildur Lóa Þórsdóttir leiðir listann nú og tæki hún sæti Karls Gauta á þingi fyrir hönd Flokks fólksins.

Oddný G. Harðardóttir leiðir lista Samfylkingar og er hún eini þingmaður þeirra á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Oddný er nokkuð örugg með áframhaldandi sæti á þingi.

Þá munu Píratar fá einn mann kjörinn samkvæmt könnuninni en Álfheiður Eymarsdóttir er efst á lista þeirra. Smári McCarthy situr nú á þingi fyrir Pírata en hann komst inn sem uppbótarþingmaður í síðustu kosningum. Smári ákvað að hætta á þingi að þessu kjörtímabili loknu.

Vinstri grænir fengu einn þingmann í síðustu kosningum. Þá leiddi Ari Trausti Guðmundsson listann en hann gaf ekki kost á sér fyrir þessar kosningar. Hólmfríður Árnadóttir leiðir lista Vinstri grænna í ár en miðað við skoðanakönnunina er hún mjög tæp inn og kæmist mögulega inn sem uppbótarþingmaður.

Samkvæmisleikur

Á vef Morgunblaðsins, mbl.is, er tekið fram að þess­ir út­reikn­ing­ar séu ekki mjög nákvæmir og könnuninni er líkt við samkvæmisleik sem gefur nokkra hugmynd um hvað kunni að gerast í alþingiskosningunum í haust.

Til þess að reikna út þing­menn eft­ir kjör­dæm­um er miðað við kjör­sókn í síðustu kosn­ing­um og sums staðar munar svo litlu að ekki þarf nema nokk­ur at­kvæði til eða frá í einu kjör­dæmi til þess að breyta stöðunni mikið og langt út fyr­ir það kjör­dæmi. Þá er sá möguleiki einnig fyrir hendi að einn eða fleiri flokk­ar falli af þingi því sam­kvæmt skoðana­könn­un­inni eru þrír flokk­ar rétt fyr­ir ofan 5% þrösk­uld­inn sem áskil­inn er.