Thrifty Fólksbílar

Fréttir

Slökkviliðið skolaði í burtu óhreinindin
Laugardagur 3. apríl 2021 kl. 14:56

Slökkviliðið skolaði í burtu óhreinindin

Slökkvilið Grindavíkur mætti að björgunarmiðstöðinni í Grindavík í gær, föstudaginn langa, og þreif planið fyrir framan húsið.

„Þvílík gleði sem það var enda hafa hundruðir björgunarsveitarmanna lagt leið sína til Grindavíkur á síðustu tveimur vikum til þess að aðstoða okkur. Allir koma þeir við í húsinu hjá okkur til þess að sækja sér gasmæla og nesti og fá í leiðinni úthlutað verkefni. Þar sem slóðarnir í kringum gossvæðið eru torfærir og gönguleiðirnar nýjar er svakalega mikil mold og drulla sem berst með fólki aftur í björgunarsveitarhúsið,“ segir í færslu frá björgunarsveitinni Þorbirni á fésbókinni. Áður en slökkviliðið kom með alvöru græjur var allt gjörsamlega á kafi í mold og drullu við húsið og fékk slökkviliðið kærar þakkir fyrir hreinsunarstarfið.

Covid hefur líka áhrif á starf björgunarsveitanna. Grímuskylda er í húsinu og allt sótthreinsað oft á dag. Vettvangsstjórn stýrir aðgerðum úr stórum stjórnstöðvarbíl við húsið okkar og búið er að koma fyrir gámahúsum og auka salernum við húsið til þess að gæta að sóttvörnum.