RNB 17 júní
RNB 17 júní

Fréttir

Skólamatur eldar fyrir Hafnfirðinga næstu fjögur ár
Axel Jónsson, eigandi Skólamatar, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar við undirritun nýja samningsins. Mynd frá Hafnarfjarðarbæ.
Miðvikudagur 7. ágúst 2019 kl. 06:34

Skólamatur eldar fyrir Hafnfirðinga næstu fjögur ár

Fyrirtækið Skólamatur ehf. hefur gert um 2,9 milljarða samning við Hafnarfjarðarbæ til fjögurra ára um að bjóða upp á mat í skólum og leikskólum bæjarins. Ársvelta samningsins er 723,5 milljónir króna en jafnframt er mögulegt að framlengja hann um 1 til 2 ár að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu.

Axel Jónsson, stofnandi og eigandi Skólamatar ehf., og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, skrifuðu undir samstarfssamninginn sem nær til framleiðslu á mat fyrir leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar árin 2019 til 2023 en Skólamatur hefur frá 1. nóvember 2017 sinnt þessari þjónustu. Skólamatur mun sjá um mat fyrir nemendur og starfsfólk ásamt samantekt að máltíð lokinni.

Að sögn bæjarstjórans hafa bæjarbúar verið sáttir með gæði matarins og þjónustu Skólamatar og segist hún fullviss um að fyrirtakið standi áfram undir þeim væntingum. „Skólamatur þekkir umhverfi okkar og áherslur vel og hefur hingað til verið mjög móttækilegt fyrir nýjum hugmyndum og þróunarverkefnum sem við höfum staðið að innan m.a. skólasamfélagsins,“ segir Rósa.