Fréttir

Sjáumst með Má
Laugardagur 13. ágúst 2022 kl. 04:58

Sjáumst með Má

Már Gunnarsson tónlistarmaður og sundkappi hefur ákveðið að leggja sundferilinn á hilluna og einbeita sér nú að tónlistinni. Í haust mun hann hefja krefjandi nám í tónlistarháskóla í Bretlandi og fer þangað einn síns liðs, ásamt leiðsöguhundinum Max, en fyrir brottför mun hann senda frá sér nýja tónlist og fara í stutta tónleikaferð um landið þar sem hann kveður landa sína í bili. Tónleikaröð Más Gunnarssonar núna síðsumars 2022 kallast Sjáumst og verða tónleikar í Sjálandi í Garðabæ 25. ágúst, í Stapa í Reykjanesbæ 1. september og á Sviðinu á Selfossi 2. september. Tónleikarnir hefjast allir kl. 20 og er miðasala á tix.is.

„Ég finn að að ég stend á tímamótum, ég hef náð frábærum árangri í lauginni. Heimsmet og þátttaka á ólympíuleikum voru markmið sem ég hafði sett mér! En mér finnst það sem laugin býður upp á núna vera meira af því sama. Ég hef keppt á stærstu mótum heims, ég hef staðið á verðlaunapalli og nú er lag að hlusta á hjartað og styrkja mig í tónlistinni. Þess vegna tek ég þessa ákvörðun,“ segir Már Gunnarsson á þessum tímamótum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Núna er ég að vinna efni með frábæru tónlistarfólki. Í júlí var ég að taka upp valin lög sem Þórir Úlfarsson útsetti með mér. Einar Valur Scheving spilar með mér á trommur, Birgir Steinn Theódórsson spilar á bassa og Pétur Valgarð Pétursson á gítar. Þetta er bæði gamalt íslenskt efni og svo nýtt efni eftir mig í stíl við það,“ bætir Már við.

Már heldur áfram að vinna gömul dægurlög og gera þau að sínum en um leið hefur hann samið lög sem hann og Þórir eru að útsetja þannig að heildarmyndin haldi þræði.