Blik- mannstu eftir Eydísi
Blik- mannstu eftir Eydísi

Fréttir

Silja sammála forgangsröðun samgönguráðherra
Þriðjudagur 25. september 2018 kl. 10:11

Silja sammála forgangsröðun samgönguráðherra

Silja Dögg Gunnarsdóttir alþingismaður segist sammála þeirri forgangsröðun að byrja á þeim vegköflum þar sem flestu og alvarlegustu slysin verða. Hún skrifaði pistil um framkvæmdir á Reykjanesbraut, utan Reykjavíkur, á fésbókarsíðu sína í gærkvöldi.
 
„Samgönguáætlun er fjármögnuð, sem er ansi góð tilbreyting. Við hefðum örugglega öll viljað sjá fleiri krónur en hljótum að hafa sameiginlegan skilning á því að fara verður í uppbyggingu samgöngukerfisins í áföngum, og það mun taka nokkur ár,“ segir Silja Dögg í svari við umræðum sem orðið hafa við pistilinum. Hann má lesa í heild hér að neðan.
 
Nokkur orð um framkvæmdir á Reykjanesbraut, utan Reykjavíkur:
 
Samgönguáætlun 2018-2033 er í samræmi við væntanlegar fjárveitingar skv. fjármálaáætlun. Hún er því ekki lengur ófjármagnaður óskalisti. Forgangsröðun framkvæmda miðast fyrst og fremst við bætt umferðaröryggi og því verður byrjað á þeim vegaköflum þar sem flest og alvarlegust umferðaslys verða.
 
Í Samgönguáætlun er gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum á Reykjanesbraut. Í fyrsta áfanga (2019-20) verður farið í tvöföldun brautarinnar á kaflanum milli Kaldárselsvegs og Krýsuvíkurvegar (2,4 milljarðar). Á öðru tímabili verður unnið að aðskilnaði akstursstefna með vegriði á milli Krýsuvíkurvegur og Hvassahrauns (3 milljarðar) á þriðja tímabili verður síðan lokið við tvöföldun Fitjar-Flugstöð (3,5 milljarðar).
 
Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er 40-60 milljarðar króna og er því til mikils að vinna að auka umferðaröryggi með öllum tiltækum ráðum. Á kjörtímabilinu verður unnið að því að Ísland verði í hópi þeirra fimm Evrópuþjóða sem búa við besta umferðaröryggið. Markmið er að fækka látnum og alvarlega slösuðum um 5% á ári að jafnaði.
Helstu aðgerðir til þess að ná þessu markmiði eru m.a.:
 
• Að breyta hegðun og viðhorfi fólks í umferðinni til betri vegar og koma með þeim hætti í veg fyrir slys. Eftirlit er í höndum lögreglu, rekstur hraðamyndavéla er í höndum Vegagerðarinnar og fræðsla og forvarnir eru í höndum Samgöngustofu.
• Að umferðarfræðsla verði í öllu skólakerfinu frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Unnið verður að nýju námsefni og eldra námsefni verður uppfært. 
• Vinna að fræðslu til erlendra ferðamanna og erlendra ríkisborgara búsetta á Íslandi.
• Að standa fyrir herferðum til þess að vinna gegn veikleikum sem birtast við greiningu slysatölfræði, s.s. ölvunarakstur, bílbeltanotkun og notkun snjalltækja.
• Fræðsla og kynningar fyrir almenning t.d. um öryggisatriði eða nýjar reglur.
• Að vinna með sveitarfélögum við gerð öryggisáætlana.
 
Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023).
 
Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú í ár. Á þessu ári var 12 milljörðum veitt til brýnna úrbóta til að tryggja umferðaröryggi sem best. Ríkisstjórnin ákvað að auka enn í viðhaldið á árinu og samþykkti að verja allt að 4 milljörðum til viðbótar úr varasjóð til þess að bregðast við brýnum viðhaldsverkefnum og uppsöfnuðum vanda. Áætlunin miðar við að auka framlag til viðhalds í 10 milljarða á ári, frá árinu 2019.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs