Fréttir

Sextíu tonna slökkvibíll á safn
Slökkvibílarnir fara um hringtorgið á Fitjum.
Mánudagur 3. desember 2018 kl. 15:45

Sextíu tonna slökkvibíll á safn

Tveir slökkvibílar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli voru í dag formlega afhentir Byggðasafni Reykjanesbæjar til varðveislu. Annar bíllinn er sextíu tonna trukkur og þurfti lögreglufylgd frá Keflavíkurflugvelli og að safnahúsi Byggðasafns Reykjanesbæjar á Fitjum. Hinn slökkvibíllinn er á hefðbundnari nótum.
 
Annar slökkvibíllinn er stærsti slökkvibíll á Íslandi fyrr og síðar og var í þjónustu Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli til margra ára. Hann var notaður á flugbrautum Keflavíkurflugvallar. Slökkvibíllinn er á risastórum dekkjum og átti, þrátt fyrir þyngd sína, að komast út fyrir flugbrautir ef flugvélar myndu farast við flugvöllinn.
 
Minni slökkvibifreiðin var hins vegar notuð sem almenn slökkvibifreið á Keflavíkurflugvelli á tímum Varnarliðsins.
 
Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur nú tekið við varðveislu bifreiðanna. Þeim verður komið fyrir í safngeymslunni á Fitjum og eru fyrsti vísir að alvöru flugvallarminjasafni um Keflavíkurflugvöll. Sagan er mikil og margir talsmenn þess að sögunni verði gerð skil á Suðurnesjum og að safnmunir glatist ekki útaf svæðinu.
 
Myndirnar voru teknar þegar bílarnir tveir voru fluttir til byggðasafnsins fyrr í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi

 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs