Fréttir

Sex meginskjálftar mælst í hrinunni við Fagradalsfjall
Grjóthlun í fjallinu Þorbirni. Mynd frá Veðurstofu Íslands.
Föstudagur 26. febrúar 2021 kl. 17:44

Sex meginskjálftar mælst í hrinunni við Fagradalsfjall

Í dag hafa 21 skjálfti mælst af stærð 3 til 4,4 við norðanvert Fagradalsfjall. Á milli klukkan 11:59 og 14:00 mældust 14 jarðskjálftar þeirra og nú laust fyrir klukkan fimm mældust tveir, annar 4,4 að stærð. Þessir skjálftar hafa allir fundist vel á Suðurnesjum en einnig á höfuðborgarsvæðinu og þeir stærstu einnig á Suðurlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Þessi virkni er með upptök í nágrenni við stærsta skjálfta hrinunnar sem varð kl. 10:05 að morgni 24. febrúar sl. og mældist 5,7 að stærð.

„Við höfum séð hrinur áður þar sem margir skjálftar af svipaðri stærð mælast á stuttum tíma. Þetta er sambærilegt því sem við sáum á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðið sumar en þekkist einmitt líka í hrinum á Reykjanesskaganum,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands á vef Veðurstofu Íslands.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Klassísk jarðskjálftafræði gerir frekar ráð fyrir einum meginskjálfta og svo eftirskjálftum þar sem stærsti eftirskjálfti hefur styrk sem er 1,2 minni en meginskjálftinn og aðrir skjálftar eru minni. Við höfum hinsvegar mælt 5 aðra skjálfta, til viðbótar við 5,7 skjálftann, sem hafa styrk á bilinu 4,5 og 5. Þetta mætti túlka þannig að í raun séu þetta nokkrir meginskjálftar og svo margar eftirskjálftahrinur. Jarðskorpan er tiltölulega þunn á Reykjanesskaganum og stærstu skjálftar á þessu hrinusvæði verða ekki mikið stærri þar, einfaldlega vegna þess að jarðskorpan brotnar áður en meiri spenna getur hlaðist upp,“ segir Kristín jafnframt.

Gasmælisýni sem tekin voru í gær sýna óvenju há gildi af vetni. Túlkun á mælingunni liggur ekki fyrir en ekki er hægt að útiloka að hún sé til marks um kvikugas á nokkurra kílómetra dýpi sem losnað hafi í jarðskjálftunum. Engar aðrar markverðar breytingar sjást fyrir aðrar gasmælingar en vetni. Mælingarnar verða endurteknar eftir helgi. 

Myndin hér að neðan sýnir samsettar Sentinel-1 gervitunglamyndir sem bárust í morgun og spanna tímabilið 19.-25. febrúar. Gervitunglaúrvinnsla staðfestir að færslur hafa mælst á svæðinu milli Svartsengis og Krýsuvíkur en þær nema nokkrum sentímetrum. Flekaskil ganga þvert í gegnum Reykjanesskagann og eru færslurnar sem mælast með gervitunglum til marks um landrekshreyfingar þar sem Evrasíuflekinn færist í austlæga átt og Ameríkuflekinn til vesturs. Engin gögn benda til að eldgos sé yfirvofandi.

Rauður litur táknar hreyfingu í átt að gervitunglinu og fjólublár hreyfingu frá gervitunglinu sem flaug vestur fyrir landið. Svörtu örvarnar yfir landakortinu tákna færslur Evrasíuflekans og Ameríkuflekans. Svörtu örvarnar í hægra horninu niðri sýna stefnu og sjónlínu gervitungls. Stærsti jarðskjálftinn að stærð 5,7 sem varð 24. febrúar síðastliðinn birtist sem rauð stjarna. Hér er myndin á PDF formi.