Fréttir

Sérhönnuðum flothylkjum hent í sjó - verða þar í „beinni“
Mánudagur 16. september 2019 kl. 09:46

Sérhönnuðum flothylkjum hent í sjó - verða þar í „beinni“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra varpaði sérhönnuðu flothylki í sjóinn frá varðskipinu Þór skammt undan Reykjanesi síðasta föstudag. Þessi aðgerð tengist verkefni um plast og rusl í hafi á vegum PAME, einum af starfshópum Norðurskautsráðsins þar sem Ísland fer nú með formennsku. 

Einn hluti verkefnisins er að sjósetja flothylki í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landhelgisgæsluna og verkfræðistofuna Verkís. Markmið þessa hluta verkefnisins er að sýna fram á hvernig rusl í hafinu getur ferðast til og frá norðurslóðum, jafnvel milli heimsálfa, yfir langan tíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Flothylkin eru búin GPS-sendum og „bein útsending“ verður frá hylkjunum á vefnum. Þar með verður því hægt að fylgja eftir ferðalagi hylkjanna yfir langan tíma. Fleiri hylki verða sjósett á næstu misserum en það fyrsta var sjósett á Reykjanesi í tengslum við fund PAME-vinnuhópsins á Íslandi.

Rusl og mengun í hafi er stækkandi vandamál og hefur eitt af verkefnum PAME síðastliðin ár verið úttekt á rannsóknum og umfangi plasts og annars rusls á hafsvæðum norðurslóða. Með formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021 mun PAME vinna að svæðisbundinni aðgerðaráætlun fyrir plast og annað rusl á hafsvæðum norðurslóða (e. Regional Action plan on Marine Litter in the Arctic) á meðal norðurslóðaríkjanna átta. 

Málaflokkurinn er einn af forgangsþemum formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu. „Að draga úr plastmengun er eitt af forgangsmálum mínum sem ráðherra og margvíslegar aðgerðir hafa þegar litið dagsins ljós hér heima eða eru í farvatninu. Ísland hefur auk þess beitt sér alþjóðlega varðandi plast og m.a. sett málið á dagskrá hjá Norðurskautsráðinu. Það er mjög mikilvægt,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.