Fréttir

Segja draga úr mengun kísilvers með endurbótum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 14:14

Segja draga úr mengun kísilvers með endurbótum

Endurbætur á kísilverksmiðju Stakksbergs í Helguvík munu draga verulega úr mengun frá verksmiðjunni, þar á meðal lyktarmengun, í nærliggjandi íbúabyggð. Þetta kemur fram í niðurstöðum loftdreifilíkans verkfræðistofunnar Vatnaskila sem metur áhrif endurbótanna á loftgæði. Helstu niðurstöður Vatnaskila hafa verið birtar á samráðsgátt Stakksbergs, segir í tilkynningu frá Stakksbergi.

Endurbæturnar eru í samræmi við skilyrði sem Umhverfisstofnun setti þegar hún samþykkti úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna.

Public deli
Public deli

Stakksberg hefur undanfarið unnið að undirbúningi, hönnun og útfærslu endurbóta á kísilverskmiðjunni í Helguvík sem felur í sér 4,5 milljarða króna fjárfestingu. Vinnan hefur miðast við úrbótaáætlun sem Umhverfisstofnun samþykkti með því skilyrði að uppsetning  skorsteins verði nánar útfærð og framkvæmd áður en endurræsing  yrði heimiluð og liggur tæknileg útfærsla nú fyrir. Hún felur í sér að 52 metra hár skorsteinn, sem rúmast inn gildandi deiliskipulags, verði reistur við hlið síuhúss. Allur útblástur frá verksmiðjunni verður leiddur í gegnum síuhús þar sem ryk er síað frá áður en loftinu verður blásið upp um skorsteininn. Með þessu hækkar útblástursopið um tæplega 21,5 metra auk þess að þrengjast verulega frá því sem áður var sem veldur verulegri aukningu í útblásturshraða. Þetta veldur því að styrkur mengunarefna þynnist út mun hraðar en áður.

Ráðgjafarfyrirtækið Vatnaskil hefur metið áhrif endurbættra útblástursmannvirkja á loftgæði með sérstöku loftdreifilíkani. Niðurstöðurnar sýna að endurbæturnar munu draga verulega úr styrk mengunarefna í nágrenni verksmiðjunnar.

Helstu niðurstöður hafa verið birtar á samráðsgátt Stakksbergs en ítarleg skýrsla Vatnaskila verður birt samhliða frummatsskýrslu umhverfismats kísilverksmiðjunnar.

Nánari upplýsingar er að finna á samráðsgátt Stakksbergs, samrad.stakksberg.is.