Fréttir

Sápan á flug eftir bankahrun og niður aftur vegna Covid-19
Ólafur með hluta af sápuúrvalinu í viðtali við VF í mars 2019.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 10. október 2020 kl. 07:09

Sápan á flug eftir bankahrun og niður aftur vegna Covid-19

Ólafur ÁrniHalldórsson hefur rekið fyrirtækið Sápuna síðan 2009 og var mest að selja til ferðamanna. Hann hefur þurft að draga saman seglin á veirutímum og m.a. lokað verslun sinni í Reykjanesbæ. „Við vonumst til að þetta fari vel í gang aftur þegar ferðamenn fara að mæta aftur til Íslands en nú er ég bara með vefverslun.“

Það kom samt ekki til af góðu að Óli fór út í þessa sápuframleiðslu því sjálfur lenti hann í heiftarlegu ofnæmi sem kom honum inn á spítala í Bandaríkjunum þar sem hann var í námi.

„Ég lenti í því í Atlanta að fá ofnæmi fyrir sápu sem varð svo alvarlegt að ég var lagður inn. Ég gat ekki notað neinar sápur. Þar fundu þeir út að ég væri með svona mikið ofnæmi fyrir sápuvörum. Í kjölfarið vorum við fjölskyldan úti að keyra eitt sinn um sveitahéruð Georgíu og ókum fram á bóndabæ þar sem verið var að framleiða náttúrulegar sápur, framleiddar frá grunni eins og gert var fyrir fimm þúsund árum. Þessi bóndi var einnig að selja alls konar dót, heimagerðar sultur og fleira heimagert. Ég keypti af honum sápu og prófaði og varð betri í húðinni því ég þoldi þessa tegund af sápu. Svo kynntist ég þessum bónda betur og hann kenndi mér að búa til mínar eigin sápur,“ sagði Ólafur Árni í viðtali við Víkurfréttir í lok mars 2019.

Ólafur stofnaði Sápuna í kjölfar bankahrunsins.
„Þá fannst mér ég verða sjálfur að skapa mér atvinnu svo aðrir gætu fengið starfið sem ég hafði. Ég ákvað að prófa að framleiða smá af sápum og fór með þær og kynnti fyrir verslunum og útbjó þær sem minjagripi. Ég fékk jákvæð viðbrögð og boltinn byrjaði að rúlla, smátt í fyrstu. Reksturinn stækkaði með fleiri ferðamönnum sem voru aðal viðskiptavinirnir en fyrirtækið mitt er dæmi um hrun í rekstri vegna Covid-19.“