Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Samstarf um notkun repjuolíu á vinnuvélar á Keflavíkurflugvelli
Vinnutæki Isavia, gröfu, ekið út á flugvallar­svæði eftir að repjuolíu var hellt á það.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 9. september 2020 kl. 11:04

Samstarf um notkun repjuolíu á vinnuvélar á Keflavíkurflugvelli

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia ohf., og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, undirrituðu á þriðjudag viljayfirlýsingu um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk tæki á Keflavíkurflugvelli.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.

Samgöngustofa hefur um nokkurt skeið unnið að rannsóknum á notkun repjuolíu sem íblöndun í eldsneyti. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingarinnar. Hann sagði tilraunir með ræktun repju með það að markmiði að framleiða lífeldsneyti hafa staðið lengi hérlendis. Fyrst á vegum Siglingastofnunar Íslands og nú hjá Samgöngustofu með aðkomu háskólanna og margra bænda.

Public deli
Public deli

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir spennandi að þróa verkefnið áfram í samstarfi við Isavia. Ræktun orkujurta er raunhæfur valkostur sem kemur ekki endilega í staðinn fyrir önnur orkuskipti. Repjuolían getur hentað mjög vel til íblöndunar á stórvirkar vinnuvélar og þannig dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samgöngustofa hefur lagt áherslu á umhverfismál í þróunarverkefnum og fagnar því að fá öflugan aðila til samstarfs. 

Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og samfélagsábyrgðar hjá Isavia, segir að eitt af markmiðum Isavia sé að minnka notkun jarðefnaeldsneytis innan fyrirtækisins. „Það má rekja stærsta hluta notkunarinnar til þeirra stóru tækja sem notuð eru til að þjónusta flugbrautir og athafnasvæði flugvalla og viðhalda þeim. Þetta eru tæki sem eru ekki enn fáanleg rafmagnsknúin. Með þessu erum við því að finna aðra og umhverfisvænni orkugjafa til að knýja þau áfram,“ segir Hrönn

Byrjað verður á einu tæki. Útblástur og eyðsla tækisins verða mæld og niðurstöður dregnar saman í skýrslu á vegum Samgöngustofu.

Sigurður Ingi Jóhannsson hellir repjuolíu á vinnutæki Isavia.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að félagið hafi sett sér stefnu í samfélagsábyrgð árið 2016 þar sem markið hafi verið sett á að stuðla að jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi. „Við höfum frá árinu 2018 kolefnisjafnað alla okkar eigin eldsneytisnotkun þannig að við höfum látið verkin tala,“ segir Sveinbjörn. „Viljayfirlýsingin sem hér er undirrituð er mikilvægt skref í átt að minni notkun jarðefnaeldsneytis hjá Isavia.“

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, var viðstaddur undirritun viljayfirlýsingarinnar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hellti olíu sem Ólafur framleiðir á gröfu frá Isavia og var henni ekið um flugvallarsvæðið. Ráðherra óskaði aðilum verkefnisins til hamingju með þetta vistvæna skref. „Ræktun repju og nýting afurða hennar hefur marga góða kosti, bæði fyrir landbúnað og sem umhverfisvænn orkugjafi. Í dag er stigið mikilvægt skref á þeirri vegferð sem vonandi er rétt að byrja.“