Optical Studio
Optical Studio

Fréttir

Rúmfastur sárkvalinn og getur enga björg sér veitt
Páll Valur Björnsson er ekki sáttur við heilbrigðiskerfið.
Miðvikudagur 30. janúar 2019 kl. 18:33

Rúmfastur sárkvalinn og getur enga björg sér veitt

- bæjarfulltrúi og kennari í Grindavík gangrýnir heilbrigðiskerfið

Páll Valur Björnsson, bæjarfulltrúi og kennari í Grindavík, gagnrýnir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og heilbrigðiskerfið almennt í harðorðum pistli  sem hann skrifar á Facebook í dag í kjölfar þess að nemandi hans fótbrotnaði. Nemandinn var sendur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til myndatöku og aðhlynningar en þaðan var hann svo sendur heim til sín þar sem hann er rúmfastur og getur enga björg sér veitt.
 
Pistill Páls Vals er hér að neðan:
 
Það er kannski ekki á það bætandi að tala um þetta blessaða heilbrigðiskerfi okkar og þá kannski sérstaklega hvernig við íbúar Suðurnesja höfum fengið lægst framlög per íbúa til þessa málflokks. En nú sé ég knúinn til þess að skrifa um þetta hörmungarástand sem ríkir hér í einu ríkasta samfélagi heims og þá staðreynd að við íbúarnir skulum láta þetta yfir okkur ganga.
 
Í síðustu viku varð það óhapp að einn af nemendum mínum 16 ára drengur fótbrotnaði í ferð á vegum skólans, það er kannski ekki í frásögur færandi því svoleiðis getur alltaf gerst. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til myndatöku og aðhlynningar og eftir skoðun var drengurinn settur í gifs frá nára og niðrá tær. Þegar að því var lokið var hann sendur heim til sín! Heim til sín!
 
Þar liggur þessi ungi maður rúmfastur sárkvalinn og getur enga björg sér veitt nema með aðstoð systkina sinna og föður sem verða að setja upp vaktir til þess að sinna honum þar sem þau stunda bæði vinnu og nám.
 
Þegar faðir hans hringdi á sjúkrahúsið til þess að segja frá því að drengurinn væri sárkvalinn og gæti ekki sofið þess vegna fékk hann þau skilaboð að dæla bara meira að verkjalyfjum í hann!
 
Það er nöturleg staðreynd að Suðurnesin sem eru það svæði á landinu sem einna mest fóksfjölgun hefur orðið skuli ekki geta boðið íbúum sínum upp á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.
 
Það er nöturleg staðreynd að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hefur úrvalsstarfsfólk skuli þurfa að senda kornungt fólk sem og aðra sjúklinga sína heim vegna fjárskorts.
 
Það er nöturleg staðreynd að 16 ára óharnaður unglingur þurfi að liggja heima hjá sér sárkvalinn með brotinn fót og að aðstandendur hans þurfi að sinna starfi sem sérmenntað starfsfólk sjúkrahúsa ætti að gera.
 
Hvílík skömm fyrir okkur Suðurnesjabúa og í raun allt íslenskt samfélag að svona skuli vera komið fyrir heilbrigðiskerfinu og einni mikilvægustu stofnun svæðisins.
 
Hættið kæru þingmernn og ráðherrar að velta ykkur upp úr því hvað siðlausir kollegar ykkar rausa fullir inn á börum þó það sé viðbjóður. Hættið að tala um að setja aukaskatta í formi veggjalda á okkur landsmenn, hættið að tala um að selja mjólkurkýrnar okkar eins og bankana og einbeitið ykkur að því sem skiptir máli.
 
Sem er að hlúa að þeim sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi sem eru börn og ungmenni, sjúklingar, öryrkjar, eldri borgarar og síðan þeir sem lægstu launin hafa sem er þegar öllu er á botninn hvolft límið sem heldur þessu samfélagi saman.
 
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs