Fréttir

Reykjanesbær átti ekki fyrir launum
Laugardagur 13. nóvember 2021 kl. 11:15

Reykjanesbær átti ekki fyrir launum

Um mánaðamótin október, nóvember árið 2014 þurfti Reykjanesbær að biðja fyrirtæki, sem þá voru að kaupa lóðir og stefndu að uppbyggingu í sveitarfélaginu, að flýta greiðslum til sveitarfélagsins svo það ætti fyrir launum. Þetta upplýsti Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, í ræðu sem hann flutti við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar 2022–2025 á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í síðustu viku.

„Til upprifjunar vil ég nefna að vegna gríðarlega erfiðrar fjárhags- og skuldastöðu sveitarfélagsins, sem birtist m.a. í niðurstöðum úttekta Haraldar Líndal og KPMG sem kynntar voru á íbúafundi í Stapa þann 29. október 2014, voru á kjörtímabilinu 2014–2018 teknar margar erfiðar en bráðnauðsynlegar ákvarðanir sem meðal annars fólu í sér auknar álögur á bæjarbúa árin 2015, 2016 og 2017 ásamt tiltekt og endurskoðun efnahags Reykjanesbæjar. Það leiddi m.a. til þess að ákveðið var að ráðast í niðurskurð, endurskipulagningu og hagræðingu í þjónustu við hratt fjölgandi íbúa. Þetta var gert undir merkjum áætlunar sem bæjarstjórn á þeim tíma var einhuga um að vinna eftir og fékk nafnið „Sóknin“, sagði Kjartan í ræðunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Báðu fyrirtæki að flýta greiðslum

Erfiðum og flóknum viðræðum við kröfuhafa, sem stóðu yfir í þrjú ár, lauk með samkomulagi í árslok árið 2017 sem varð til þess að hægt var að fella niður sérstakar álögur á útsvar og fasteignaskatt á íbúa árið 2018. „Það sama ár var allt komið á fulla ferð. Ferðaþjónustan blómstraði, umferð um Keflavíkurflugvöll var í hámarki, atvinnuleysi lítið sem ekkert og íbúum hélt áfram að fjölga langt umfram landsmeðaltal, ekki síst íbúum af erlendu bergi sem nú telja um það bil fjórðung allra íbúa Reykjanesbæjar. Íbúafjölgunin kallaði hins vegar á uppbyggingu innviða, s.s. byggingu nýs grunnskóla, fjölgun leikskólaplássa o.fl., sem aftur reyndist snúið fyrir sveitarfélag sem var þegar skuldum vafið og átti fullt í fangi með að greiða niður skuldir og reka sig frá degi til dags. Ég get til dæmis upplýst hér og nú að um mánaðarmótin október, nóvember 2014 þurftum við að biðja fyrirtæki, sem þá voru að kaupa lóðir og stefndu að uppbyggingu í sveitarfélaginu, að flýta greiðslum til okkar svo við ættum fyrir launum,“ sagði Kjartan.

Ytri skilyrði féllu með bænum

Hann sagði að sem betur fer var töluvert til af þegar tilbúnum lóðum undir íbúðarhúsnæði í Innri-Njarðvík og Ásahverfi auk þess sem einkaaðilar keyptu og brutu nýtt land undir svokallað Hlíðarhverfi á svæði sem áður tilheyrði varnarsvæðinu ofan byggðarinnar í Keflavík og Njarðvík. Auk þess var ráðist í að skipuleggja þéttingu byggðar víðsvegar í sveitarfélaginu, m.a. á því svæði sem áður var íbúðabyggð Varnarliðsins og nú heitir Ásbrú. Þar er gert ráð fyrir allt að fimmtán til átján þúsund manna byggð á næstu árum.

Gerði Reykjanesbæ kleift að ganga hnarreistum frá samningum

„Þessu til viðbótar féllu ytri skilyrði með okkur. Meðal annars seldi Reykjanesbær hlut sinn í HS Orku á mjög góðu verði eftir að fyrri sala til annarra kaupenda gekk til baka þegar þeir ákváðu að nýta ákvæði í kaupsamningi, falla frá kaupunum og skila hlutabréfunum til baka. Seinni salan gerði Reykjanesbæ kleift að ganga hnarreistum frá samningum við kröfuhafa þar sem allir fengu sitt og enginn þurfti að gefa neitt eftir að öðru leyti en því að vextir voru lækkaðir og lengt í lánum,“ sagði bæjarstjórinn.

Þessum hluta endurskipulagningarinnar lauk svo í byrjun þessa árs, 2021, með endurfjármögnun 8,4 milljarða skulda og skuldbindinga Eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem nú er alfarið í eigu Reykjanesbæjar. „Sú endurfjármögnun mun skila sér í verulegri lækkun fjármagnskostnaðar næstu árin, frá því sem annars hefði orðið,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, í ræðunni.