Max 1
Max 1

Fréttir

Reykjanes á alþjóðlegan jarðminjalista
VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 9. september 2024 kl. 13:02

Reykjanes á alþjóðlegan jarðminjalista

Eldstöðin Reykja­nes er komin á lista Alþjóðajarðfræðisam­bands­ins (IUGS) yfir 100 merka jarðminj­astaði á jörðinni. Þetta var kynnt á alþjóðlegri jarðfræðiráðstefnu sem hald­in var ný­verið í Bus­an í Suður-Kór­eu en að auki fékk Vatnajökull sæti á listanum. Mark­mið með út­gáfu jarðminjalista er að vekja at­hygli á mik­il­vægi jarðminja til fræðslu og þekk­ing­ar og stuðla að varðveislu merkra jarðminj­astaða. Þetta kemur fram á vef Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Þurfa að hafa mikið alþjóðlegt vís­inda­gildi

Þetta er í annað sinn sem IUGS tekur saman lista yfir merka jarðminjastaði og nefnist hann „The Second 100 IUGS Geological Heritage Sites“. Fyrsti listinn var birtur á 60 ára afmælishátíð sambandsins árið 2022 undir heitinu „The First 100 IUGS Geological Heritage Sites“. Jarðminjastaðirnir eru birtir rafrænt og einnig í bókarútgáfu. Ráðgert er að listar IUGS verði þrír og mun sá þriðji birtast á árinu 2026. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Nátt­úru­fræðistofn­un til­nefndi eld­stöðina Reykja­nes á jarðminjalista IUGS sem alþjóðleg­an mik­il­væg­an jarðminj­astað vegna teng­ing­ar hans við Mið-Atlants­hafs­hrygg­inn. Alþjóðlegt sam­band land­mót­un­ar­fræðinga til­nefndi Vatna­jök­ul sem alþjóðlega mik­il­væg­an jarðminj­astað vegna sam­spils jök­uls og eld­virkni.

Til að komast á jarðminjalista IUGS þurfa jarðminjastaðir að hafa mikið alþjóðlegt vísindagildi, þeir eru heimsins bestu dæmi um ákveðin myndunar- og mótunarferli, þetta eru staðir þar sem gerðar hafa verið merkar jarðfræðilegar uppgötvanir t.d. um sögu jarðar, eða staðir þar sem rannsóknir hafa stuðlað að þróun jarðfræði sem vísindagreinar. Umfjöllun um jarðminjar má sjá á vef IUGS.

UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. UNESCO Global Geoparks eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.