Toyota ársgamlir bílar á tilboði
Toyota ársgamlir bílar á tilboði

Fréttir

Pólitísk svik í Reykjanesbæ
Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli til hægri, ásamst Gunnari Rúnarssyni frá Miðflokknum. VF-mynd/pket.
Fimmtudagur 13. september 2018 kl. 14:30

Pólitísk svik í Reykjanesbæ

Miðflokkurinn æfur yfir því að Frjálst afl hefur snúið sér að Sjálfstæðisflokknum. „Vonandi upphafið að sameiningu flokkana“, segir odddviti sjálfstæðismanna

„Haldiði að bæjarbúar séu ánægðir með svona andlýðræðisleg vinnubrögð. Hvar er lýðræðið, hvað með samstarfið,“ spurði Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Miðflokksins á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku. Hún gagnrýndi Gunnar Þórarinsson, oddvita Frjáls afls um að hafa gengið í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa gert samkomulag við Miðflokkinn eftir kosningar. „Vonandi,“ sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðismanna, aðspurð um hvort þetta væri fyrsta skrefið í sameiningu flokkana.

Margrét Þórarinsdóttir, skrifar grein í VF þar sem hún gagnrýnir harðlega Frjálst afl fyrir að rjúfa samkomulag milli Miðflokksins og Frjáls afls um skipan í nefndir í bæjarfélaginu að loknum kosningum sl. vor. Nú hefur Gunnar Þórarinsson hjá Frjálsu afli gert samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn um skiptingu í þremur nýjum nefndum, þar á meðal Framtíðarnefnd. Þetta mun líklega þýða að Miðflokkurinn fær ekki sæti í bæjarráði eins en tilnefningar í það fara fram árlega. Flokkarnir voru búnir að semja um setu í bæjarráði. Margrét er afar ósátt við þetta og segir tilganginn eingöngu að koma í veg fyrir að Miðflokkurinn fái sæti í nefndum.

Gunnar Þórarinsson sagði á bæjarstjórnarfundinum að hann hafi stutt það að Miðflokkurinn fengi áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs sagði að bæjaryfirvöld hafi leitað til ráðuneytis um hvort flokkurinn ætti rétt á áheyrnarfulltrúa en niðurstaðan hafi verið sú að svo er ekki.

Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2014 og árangur hans í þeim gerði honum kleift að ganga til samstarfs við aðra flokka og mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn og þannig koma Sjálfstæðisflokknum úr meirihluta. Hann var ósáttur við Árna Sigfússon, þáverandi bæjarstjóra og stofnaði nýjan flokk eftir að hafa tapað baráttu um oddvitasæti í prófkjöri og verið færður niður um sæti á framboðslista flokksins. Nú er staðan hins vegar sú að Árni er ekki lengur í bæjarstjórn og því hefur Gunnar sýnt gamla flokknum sínum áhuga á nýjan leik. Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins er ánægð með samstarfið sem er byrjað hjá framboðunum og vonast til að það verði til þess að þau sameinist á ný í Sjálfstæðisflokknum.

Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjaensbæ

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs