bygg 1170
bygg 1170

Fréttir

Óveðrið sérstakt og óvenjulegt í alla staði
Frá Reykjanesbraut nærri Rósaselstorgi í gærkvöldi. Ljósmynd: Siggeir Pálsson
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 13. janúar 2020 kl. 08:43

Óveðrið sérstakt og óvenjulegt í alla staði

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á fésbókarsíðu sinni að ekki hafi verið auðvelt að sjá þessa þróun í veðrinu í gær alla fyrir og sérstaklega þá ferðir lægðarinnar. „Versta veðrið var staðbundið og nokkuð ljóst að ef miðja lægðarinnar hefði verið svo að segja yfir Garðskaga á sínu hringsóli hefði sloppið mun betur til,“ segir hann.

„Við eigum því að venjast að lægðir fari hér hjá og hverfi sjónum okkar síðan út í buskann. En ekki þessi! Hún hringsólaði vestur af landinu og kom síðan aftur með stefnu á Reykjanes. Einhver spálíkön sýndu svo sem slíka þróun strax á föstudag og á laugardagskvöld sást skýjabakki á undan henni sem síðan snjóaði frá víða suðvestanlands á sunnudagsmorgni.

Á eftir voru síðan frekar litlir en snúðmyndaðir éljabakkar sem greina mátti á tunglmyndum, en komu illi fram á ratsjánni næst staðsetningu hennar við Sandgerði.

Sjá má á samsettu veðurkortum Veðurstofunnar sem ég útbjó, að lægðin hægði enn og aftur ferðina og tók reyndar enn einn snúningin til yfir Reykjanesskaga í gærkvöldi.

Bylurinn var verstur á mill kl. 18 og 22 og þá 20 m/s af NA á Keflavíkurflugvelli, mikill skafrenningur ásamt ofankomu. Skyggni í flugathugun var ekki nema 200-300 m þessar u.þ.b. 4 klst.

Ekki var auðvelt að sjá þessa þróun alla fyrir og sérstaklega þá ferðir lægðarinnar. Versta veðrið var staðbundið og nokkuð ljóst að ef miðja lægðarinnar hefði verið svo að segja yfir Garðskaga á sínu hringsóli hefði sloppið mun betur til.

Óveður þetta telst vera sérstakt og óvenjulegt í alla staði, en strandaðir snjókomubakkar úr vestri eru þó engin nýlunda að kljást við fyrir okkur veðurfræðingana, svo ekki sé talað um veðurlíkönin sem voru út suður i aðdragandanum,“ segir Einar í færslunni.