Fréttir

Nýtt og glæsilegt útisvæði við sundmiðstöðina
Föstudagur 14. maí 2021 kl. 07:05

Nýtt og glæsilegt útisvæði við sundmiðstöðina

Miklum endurbótum og nýframkvæmdum lokið. Tólf metra há vatnsrennibraut nýtt flaggskip á svæðinu.

Nýtt og glæsilegt útisvæði við Sundmiðstöðina í Keflavík var vígt síðasta föstudag, við upphafa Barna- og ungmennahátíðar í Reykjanesbæ, en margvíslegar framkvæmdir hafa staðið yfir frá árinu 2017.

Þær hófust þegar tæknibúnaður í kjallara var endurnýjaður að hluta og ný afgreiðsla var gerð ári síðar. Í framhaldi af þeim framkvæmdum kom upp hugmynd að lagfæra útisvæðið. Meðal nýjunga þar er ný vatnsrennibraut sem er tólf metra há en hún hefur slegið í gegn hjá yngri kynslóðinni og skartar tveimur rennibrautum. Þá var bætt við tveimur heitum pottum á svæði sem áður voru steyptir áhorfendapallar, köldum potti og saunaklefa og settur upp nýr vatnsgufuklefi og nýir útiklefar. Samhliða þessum framkvæmdum var ráðist í frekari viðhaldsframkvæmdir á svæðinu, hitalagnir voru lagðar í allt útisvæðið og tækjabúnaður í kjallara uppfærður. Verktakafyrirtækið Arnarhvoll var stærsti verktakinn í þessum framkvæmdum en fleiri verktakar og fyrirtæki komu að þessum breytingum sem þykja hafa heppnast mjög vel.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segir að í stefnu Reykjanesbæjar sem ber heitið „Í krafti fjölbreytileikans“ sé talað um að þroska og næra hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf og jafnframt að veita jöfn tækifæri til heilbrigðs lífs og hamingju. „Sundlaugar hafa um árabil verið stór hluti af menningu okkar þjóðar og heimsóknir í þær hjálpað til við að næra líkama og sál. Þó upphaflega hafi tilgangurinn einkum verið til að þrífa kroppinn eru þær í dag samkomustaður þar sem kynslóðir mætast í ólíkum tilgangi. Hvort sem markmiðið er líkamsrækt, afslöppun, leikur, dægradvöl, sólbað, heilun eða stefnumót er það von okkar að ný og endurbætt aðstaða verði til þess að hér geti allir íbúar Reykjanesbæjar átt saman gæðastundir um ókomna tíð,“ sagði bæjarstjóri við formlega opnun.

„Viðtökurnar hafa verið frábærar og aðsókn hefur aukist mikið. Nýja rennibrautin er flaggskipið okkar og á eftir að draga marga að en í heildina er þetta mikil viðbót og aðstaðan orðin til fyrirmyndar fyrir okkar gesti. Eftir þessar breytingar erum við með eina glæsilegustu sundaðstöðu á landinu,“ segir Hafsteinn Ingibergsson, forstöðumaður, og bætti því við að um helgar væri mikið um heimsóknir gesta úr öðrum bæjarfélögum. Þar hefur skemmtileg innistaða fyrir börn verið mikið aðdráttarafl. Sundmiðstöð Keflavíkur var opnuð árið 1990. Rúmum áratug síðar var byggð 25 metra innilaug og Vatnaveröld.

Nýlega var opnunartími lengdur um klukkustund virka daga og er þá opið til klukkan 21:30 og um hálftíma um helgar og þá er opið til klukkan 18. Hafsteinn útilokaði ekki að opnunartími yrði lengdur enn meira um helgar en óskir þess efnis hafa borist frá gestum.

Nýja rennibrautarmannvirkið 12 metrar en lengri rennibrautin byrjar í tíu metrum.



Nýir heitir pottar eru vinsælir.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri færði sundmanninum Má Gunnarssyni blómvönd fyrir glæsileg heimsmet sem hann setti nýlega.




Nemendur í 6. bekk Háaleitisskóla á Ásbrú vígðu rennibrautina formlega og fóru nokkrar bunur.



Nýr kaldur pottur, sauna og vatnsgufubað og nýir útiklefar.

Tónlistarfólk frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar flutti nokkur lög við opnunina.