Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Nýjar byggingar raða sér á milli eldri húsa í Hverfinu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 26. febrúar 2021 kl. 07:19

Nýjar byggingar raða sér á milli eldri húsa í Hverfinu

Nú er unnið að deiliskipulagstillögu að svæðinu milli Hringbrautar og Sólvallagötu í Reykjanesbæ og nær frá lóð gömlu slökkvistöðvarinnar og að Faxabraut. Jón Stefán Einarsson frá JeEs arkitektum ehf. kynnti skipulagsvinnuna fyrir umhverfis- og skipulagsráði í síðustu viku. Verkefnið gengur undir nafninu Hverfið.

Í uppbyggingu á svæðinu er gert ráð fyrir þriggja hæða fjölbýli með þakgarði og bílgeymslu. Ný lyfta og svalagangar verða sett á eldri hús á svæðinu og gert ráð fyrir uppbroti í ásýnd. Þakgarðar verða á nýju húsunum. „Samnotarými samfélagsins í húsi nýtur útsýnis og sólar. Útisvæði, skáli, gróðurhús eða önnur spennandi not,“ segir í tillögunni.

Public deli
Public deli

Endurhönnun Hringbrautar sem kemur í veg fyrir hröðun bíla og bætir hljóðvist. Þá verða settar öruggari þveranir á Hringbrautina.

Í kynningu JeEs arkitekta segir jafnframt með tillögunni:

„Hverfið við Hringbraut er vel tengt samgönguinnviðum og þjónustu. Það er á spennandi þróunarsvæði þar sem nálægt er mikið af óbyggðum eða vannýttum svæðum sem vert er að þróa. Það er stutt frá skólum og íþróttasvæðum.

Hjarta verkefnisins er að hlúa að hverfinu í heild með því að afmarka það betur með nýjum byggingum. Huga þannig að samfellu heildar með Sólvallagötu, Njarðargötu, Austurbraut og Hólabraut.

Nýjar byggingar raða sér á milli eldri húsa og skapa afmarkað göturými Hringbrautar. Þannig má fylla í vannýtt göt án þess að ganga nærri eldri byggð. Svalagangar og lyfta tengjast eldri húsum og bæta aðgengi.

Aðkoma húsa og bakgarðar tengjast Sólvallagötu. Hægt er að þróa þessi svæði með vönduðum yfirborðsfrágangi bæði fyrir íbúa og farartæki. Nýju húsin skyggja ekki á göturýmið eða garða fólks.

Hringbraut er endursköpuð sem grænn samgönguás með gróðri og bættum göngu- og hjólastígum. Minniháttar inngrip eru gerð í götu sem tryggja löglegan umferðarhraða og passar upp á hljóðvist. Þar verða öruggar þveranir sem tengir hverfið hugsanlegu vannýttu þróunarsvæði vestan Hringbrautar.

Inngrip skapar þannig samfellu byggðar beggja vegna Hringbrautar og fylgir nálægu byggðamynstri. Svæðið er vel nýtt og gefur kost á að skapa heildstæða byggð með frekari uppbyggingu. Hugað er að ólíkum samgöngumátum.“



Þessi mynd sýnir mögulega ásýnd þeirra húsa sem munu rísa í Hverfinu.

Horft yfir svæðið sem nú er unnið að deiliskipulagi á.
Verði skipulagið að veruleika mun ásýnd svæðisins breytast mikið.


VF-mynd: Hilmar Bragi