Fréttir

Ný staða hjá Grindavíkurhöfn vegna meiri umsvifa
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 16. janúar 2023 kl. 07:34

Ný staða hjá Grindavíkurhöfn vegna meiri umsvifa

Komum flutningaskipa fjölgaði fjórfalt á milli ára. Vöktun flutningaskipa nauðsynleg, m.a. vegna hryðjuverkaógnar.

„Vegagerðin telur mögulegt að bæta öryggi innsiglingarinnar til Grindavíkur umtalsvert með tilkomu nýs brimvarnagarðar sem myndi skýla skipum í ytri innsiglingarennu. Innsigling til hafnarinnar yrði þannig ekki nærri því eins áhættusöm og hún getur verið við verstu aðstæður,“ segir Sigurður A. Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík.

Reiknilíkön sem Vegagerðin hefur útbúið og beitt til þess að skoða mögulegar hafnabætur hafa leitt áþreifanlega í ljós að mögulegt er að breikka ytri og innri innsiglingu án þess að það valdi ókyrrð innan hafnarinnar því ytri garður mun koma í veg fyrir ölduálag til hafnarinnar þó svo að ytri og innri innsigling yrði opnari eins og hún er núna. „Reyndir skipstjórnarmenn fullyrða að með þessum aðgerðum muni stærstu togararnir og flutningaskip eiga auðveldar með að sigla inn í Grindavíkurhöfn í slæmum veðrum. Það er því margt framundan hjá okkur í Grindavíkurhöfn og við lítum framtíðina björtum augum,“ segir Sigurður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Grindavikurbær auglýsti á dögunum nýtt starf hjá hafnarþjónustunni en viðkomandi þarf m.a. að búa yfir 3. stigs skipstjórnarréttindum.

Að sögn hafnarstjóra er ástæða þessar ráðningar í grunninn meiri umsvif og þá aðallega í komu flutningaskipa. Árið 2021 komu átta flutningaskip til Grindavíkur en á nýliðnu ári lögðust alls 27 flutningaskip við bryggju í Grindavík. 

„Við munum breyta okkar vinnuskipulagi þannig að ekki verður ráðið í sumarafleysingar þannig að stöðugildum fjölgar í raun aðeins um ½ starf á ársgrundvelli. Fiskeldi í kringum Grindavík hefur aukist og mun bara aukast á næstu árum og það mun leiða af sér meiri flutninga. Innsiglingin okkar er líka orðin betri en hún var eftir dýpkunaraðgerðir og stefnt er að því að bæta hana enn frekar á komandi árum. Þess vegna sjáum við fram á að fleiri flutningaskip muni koma til Grindavíkur en skv. ISPS sem er alþjóðlegur öryggisstaðall, m.a. vegna hryðjuverkaógnar, þá þurfa starfsmenn hafnarinnar að vakta svæðið í kringum viðkomandi flutningaskip allan tímann á meðan það liggur við höfn.“