Rétturinn
Rétturinn

Fréttir

Njarðvíkingar fengu búnaðinn sólarhring síðar - hrósa lögreglunni sem handtók 4 menn
Búnaðurinn sem mennirnir stálu, tölvur, myndvarpi og hátalarar.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 16. september 2020 kl. 11:17

Njarðvíkingar fengu búnaðinn sólarhring síðar - hrósa lögreglunni sem handtók 4 menn

Ábendingar leiddu til handtöku mannanna

„Ég vil bara þakka Lögreglunni á Suðurnesjum fyrir frábær vinnubrögð. Ég var satt að segja ekki bjartsýnn á að þetta kæmi í leitirnar en við höfum fengið afhent allt sem var tekið,“ segir Brynjar Freyr Garðarsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar Njarðvíkur í samtali við Víkurfréttir en eins og greint var frá í fyrradag var brotist inn í vallarhús félagsins í Njarðvík og þaðan stolið raftækjum og hátölurum að verðmæti nokkur hundruð þúsunda króna. Fjórir karlmenn af erlendum uppruna voru handteknir í gær vegna málsins og eru í yfirheyslum hjá lögreglunni. Hugsanlega eru fleiri tengdir málinu.

Lögreglan á Suðurnesjum fékk margar góðar ábendingar eftir að hafa sagt frá innbrotinu á Facebook-síðu sinni. Ein þeirra leiddi til handtöku mannanna en þjófarnir komu við á fleiri stöðum en í vallarhúsi UMFN þessa nótt. Sérsveit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði kollega sína á Suðurnesjum í þessu máli en hún er stundum kölluð til.

Knattspyrnudeildin setti myndband úr öryggismyndavél á netið á mánudaginn og viðbrögðin voru ótrúleg og um 25 þúsund manns hafa skoðað myndbandið. Víkurfréttir hafa heimildir fyrir því að hugsanlega hafi þjófarnir reynt að brjótast inn á fleiri stöðum sömu nótt, m.a. í Reykjaneshöllina því öryggiskerfi þar fór í gang.