Fréttir

Mikilvægur samningur í höfn
Það var góður andi yfir mönnum á föstudag þegar undirritun nýs samnings við Fisktækniskóla Íslands fór fram. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 22. nóvember 2021 kl. 09:25

Mikilvægur samningur í höfn

Fisktækniskóli Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytið gera fimm ára samning um grunnám í fisktækni

Undirritun fimm ára samnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Fisktækniskóla Íslands fór fram í Grindavík síðastliðinn föstudag. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaðir samninginn fyrir hönd síns ráðuneytis og Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari, fyrir hönd Fisktækniskóla Íslands.

Samningurinn er til fimm ára um kennslu grunnnáms í fisktækni og er endurnýjun á fyrri samningi með viðbótum. Auk þess að leysa af hólmi eldri samning frá 2016 opnar nýr samningur á þann möguleika að taka til kennslu á fleiri brautum skólans, svo sem í veiðarfæratækni (netagerð), fiskeldi, gæðastjórn, Marel-vinnslutækni og haftengdri nýsköpun, en skólinn hefur boðið fram þetta nám undanfarin ár við miklar vinsældir.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá stofnun Fisktækniskóla Íslands en um þessar mundir stunda um 160 nemendur nám á skipulögðum brautum skólans, auk þess fer fram umfangsmikið námskeiðahald hjá skólanum. Nánast öll kennsla fer fram í Grindavík en Fisktækniskólinn er einnig með kennsluaðstöðu í Garðabæ, Reykjavík og á Bíldudal. Þá hefur skólinn boðið fram grunnnám í samstarfi við skóla og fræðsluaðila víða um land.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Frá því skólinn hlaut viðurkenningu 2012 hafa vel á fjórða hundrað nemenda lokið námi af skilgreindum brautum skólans og þar af samtals um eitt hundrað frá samstarfsskólum og fræðsluaðilum á Sauðárkróki, Tröllaskaga/Dalvík, Akureyri og Höfn í Hornafirði. 

Undirritun samningsins fór fram í húsnæði Fisktækniskólans í Grindavík að viðstöddum fulltrúum Grindavíkurbæjar, Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum, stjórnar og starfsmanna skólans. Flutt voru stutt ávörp og þakkaði skólameistari ráðherra sérstaklega fyrir stuðning við skólann og hafði á orði að „þessi ráðherra“ hafi verið sérstaklega iðinn við að mæta á alls kyns viðburði tengda skólanum og uppbyggingu hans. 

Ólafur Jón, skólameistari, kynnti nýstárlegar kennsluaðferðir þar sem nemendum gefst kostur á að kynna sér umhverfi skips með aðstoð þrívíddartölvutækni án þess að fara um borð. „Kennslan fer fram í framtíðarumhverfi en ekki gömlum beitiskúr,“ sagði skólameistari meðal annars.
Lilja talaði meðal annars um mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt hagkerfi, það hafi verið ein af grunnstoðunum í gegnum tíðina og er það enn.

Auk skólameistara og ráðherra tóku Hjálmar Hallgrímsson, fulltrúi Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum og fulltrúi í stjórn skólans, og Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, til máls. Höfðu þeir orð á mikilvægi skólans og lýstu yfir ánægju með að nýr samningur væri nú í höfn. Að lokinni undirritun buðu fulltrúar Grindavíkurbæjar ráðherra í heimsókn í Kvikuna en þar áforma heimaaðilar að byggja við og að skólinn myndi þar ákveðna kjölfestu í nýju nýsköpunar- og menningarhúsi.

Menntamálaráðherra undirritar samning við Fisktækniskólann