Max 1
Max 1

Fréttir

Mikilvægt að koma upp vistheimili barna
Föstudagur 27. september 2024 kl. 06:05

Mikilvægt að koma upp vistheimili barna

Starfsmenn barnaverndar Reykjanesbæjar hafa þurft að hýsa börn heima hjá sér

Valgerður Björk Pálsdóttir, oddviti Beinnar leiðar í Reykjanesbæ, sagði á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku mikilvægt að setja á fót fjölskylduhús eða vistheimili barna og benti á að það væri lögbundin skylda sveitarfélaga. Í nýútkominni sameiginlegri skýrslu barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar kemur fram að þörf er fyrir slíkt heimili.

Í máli Valgerðar kom fram að nauðsynlegt væri að geta brugðist hratt og vel við þegar börn þurfa á bráðabirgða vistun að halda vegna vanrækslu, ofbeldis eða annarra óviðunandi aðstæðna á heimili sínu. Í fjölskylduhúsi væri hægt að tryggja að börn fái faglegan stuðning á meðan dvöl stendur, með sérþjálfuðu starfsfólki sem hefur þekkingu og færni til að mæta þörfum þeirra.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Ég geri mér grein fyrir að rekstur á fjölskylduhúsi er kostnaðarsamur en bæði er það ódýrara en að leita tímabundið í einkarekin úrræði utan sveitarfélagsins, og þessi upphæð sem kemur fram í skýrslunni er auðvitað ekki alveg lýsandi þar sem hægt er að draga frá þann kostnað sem fer í dag til vistforeldra. Svo má auðvitað velta fyrir sér samfélagslega kostnaðnum til framtíðar fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra og samfélagið allt, ef ekki tekst að vinna vel úr málum þeirra. Eflaust minnkar líka álagið á barnaverndarstarfsmenn sem hafa þurft að hýsa börn heima hjá sér í nokkrum  tilfellum þar sem ekkert annað var í boði, sem er auðvitað óboðlegt,“ sagði Valgerður m.a. í ræðu sinni á bæjarstjórnarfundinum.

Í skýrslunni koma fram ýmsar tillögur að lausnum á þessum áskorunum og sagði Valgerður að henni litist mjög vel á að sveitarfélög á Suðurnesjum verði í samstarfi um reksturinn á svona húsi.  „Það er ljóst að þörfin á fjölskylduhúsi á Suðurnesjum er aðkallandi og koma þarf slíku úrræði á sem fyrst til að tryggja velferð og öryggi barna sem þurfa á þjónustunni að halda.“