Fréttir

Miðflokkurinn með meira en helming bókana í Reykjanesbæ
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, er bókanadrottning Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 29. maí 2020 kl. 07:48

Miðflokkurinn með meira en helming bókana í Reykjanesbæ

Alls voru lagðar fram 70 bókanir á bæjarstjórnarfundumí Reykjanesbæ 2019. Færst hefur í vöxt að bæjarfulltrúar leggi fram bókanir um einstök mál. Meira en helmingur þeirra, eða 43, voru lagðar fram af Miðflokknum en næstflestar voru lagðar fram af meirihlutanum í Reykjanesbæ sameiginlega eða tíu alls. Þetta kemur fram í skýrslu Jóhanns F. Friðrikssonar, forseta Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Tekin voru fyrir 231 mál á tímabilinu og var fjórtán þeirra vísað til frekari umfjöllunar, flestum til bæjarráðs. Fimm tillögur voru felldar og 212 samþykktar og má segja að sú staðreynd beri merki góðrar samvinnu og sátta um störf bæjarins. Alls voru 106 mál samþykkt án umræðu en stefnur bæjarins, fjárhagsáætlun og ársreikningur eru ávallt tekin til umræðu oftar en einu sinni með minnst viku millibili. Sem fyrr segir hefur starfsemi bæjarins aukist á undanförnum árum og nefndum fjölgað. Afgreiddar voru 37 fundargerðir bæjarráðs árið 2019 en bæjarráð fundar að jafnaði einu sinni í viku.

Umhverfis- og skipulagsmál fyrirferðamikil

Þó svo öll málasvið bæjarins fái umræðu á fundum bæjarstjórnar má segja að umhverfis- og skipulagsmál hafi fengið meiri umræðu á árinu 2019 en oft áður. Alls ræddi bæjarstjórn grenndarkynningar fjórtán sinnum og deiliskipulag ýmissa svæða alls tólf sinnum. Umhverfis- og skipulagsmál eru samofin málefnum er snúa að iðnaðarsvæðinu í Helguvík þar sem sorgarsaga kísilvera er meginþemað. Alls báru málefni Stakksbergs níu sinnum á góma á bæjarstjórnarfundum á árinu sem eðlilegt þykir í ljósi þess hversu mikið áfall sú brostna uppbygging var fyrir bæjarfélagið og samfélagið í Reykjanesbæ. Háum fjárhæðum hafði verið varið af hálfu fjárfesta og Reykjanesbæjar til verkefnisins sem síðan kom í ljós að stóð á brauðfótum, enn sér ekki fyrir endann á því ferli.

Sjáið meira um málgleði bæjarfulltrúa í Víkurfréttum.