Fréttir

Mætt til Keflavíkur til að fljúga með WOW til Detroit - fundu ekki innritunarborðið
Daginn sem WOW air féll var þessi mynd tekin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. VF-myndir: pket
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 30. júlí 2019 kl. 18:42

Mætt til Keflavíkur til að fljúga með WOW til Detroit - fundu ekki innritunarborðið

Par sem kom með flugi Finnair til Keflavíkurflugvallar í gær greip í tómt þegar það hugðist innrita sig í flug með WOW air til Detroit í Bandaríkjunum.

Ungt par kom í innritunarsalinn á Keflavíkurflugvelli og spurði hvar innritunin fyrir WOW væri. Starfsmaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem parið gaf sig á tal við, trúði varla eigin eyrum. Samskonar atvik kom upp á Arlandaflugvelli í Stokkhólmi í gær þar sem ferðalangur ætlaði að innrita sig í flug með WOW air til Toronto í Kanada en RÚV greindi frá því máli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Parið kom, eins og áður segir, með Finnair til Íslands og átti bókað flug áfram vestur um haf með WOW air. Þau höfðu ekki hugmynd um að flugfélagið hefði hætt starfsemi fjórum mánuðum áður. Þau enduðu á því að kaupa flug með Icelandair til Bandaríkjanna. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem grandalausir ferðalangar eru að leita að innritunarborði WOW air eftir fall flugfélagsins. Nýverið var farþegi frá Asíu í innritunarsalnum sem átti bókað flug frá Íslandi en hafði ekki hugmynd um örlög flugfélagsins. 


Úr innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar - þegar WOW air var með aðstöðu þar.