Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Mælir með að rekstur á fyrirhuguðu tjaldsvæði verði boðinn út
Happy Campers eru að útbúa tjaldstæði í Innri Njarðvík.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 30. október 2020 kl. 07:42

Mælir með að rekstur á fyrirhuguðu tjaldsvæði verði boðinn út

Uppbygging á tjaldsvæði í Reykjanesbæ var til umræðu á síðasta fundi menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar. Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri ferðamála, fór yfir minnisblað um uppbyggingu tjaldsvæðis í Reykjanesbæ á fundinum.

„Þegar horft er til þeirra markhópa sem líklegir væru til að sækja í tjaldsvæði í Reykjanesbæ er um tvennskonar hópa að ræða, annars vegar erlendir ferðamenn sem væru líklegir til að gista fyrstu og/eða síðustu nóttina sína í Reykjanesbæ og hins vegar Íslendingar og ferðamenn sem leita í fjölskylduvænni aðstöðu. Langflestir Íslendingar ferðast á eigin vegum og gista annað hvort á tjaldsvæðum eða í sumarbústöðum. Í dag svarar Reykjanesbær hvorugum hópnum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þessir hópar eru í eðli sínu mjög ólíkir og kalla á mjög ólíka þjónustu og ferðahegðun þó grunnþörfin sé sú sama. Þegar sú vá sem herjað hefur á okkur á þessu herrans ári ásamt þeim afleiðingum sem fylgdu í kjölfarið fundu ferðaþjónar í Reykjanesbæ tilfinnanlega til þess að Íslendingar voru einfaldlega ekki að sækja bæinn heim og margir höfðu orð á því að þarna væru fólgin tækifæri (skv. samtölum við ferðaþjóna í maí/júní 2020), jafnvel hótelin sáu tækifæri í þessum markhópi, t.d. í leigu á sölum, matsölu ásamt fleiru.

Í framtíðarsýn tjaldsvæðis verður leitast við að skipuleggja svæði með möguleika á útboði til reksturs. Þar með er ekki einungis verið að svara þeim hópi ferðamanna sem líklegir væru til þess að stoppa í lengri tíma á viðkomandi svæði, heldur er verið að skapa rými fyrir samfélagið, með því að setja kvaðir byggðar á ferðamálastefnu er stuðlað að ferðamennsku sem byggir á þörfum heimamanna, er sjálfbær, stuðlar að aukinni atvinnu, fjölbreyttri ferðaþjónustu og stuðlar að aukinni þjónustu og hærra þjónustustigi.

Þó svo tiltekið svæði sé tekið fyrir í tillögu og önnur rædd í minnisblaði þá er á engan hátt lokað á önnur svæði sem komið geta til álita. Óskað hefur verið eftir umsögn frá umhverfis- og skipulagssviði. Gróf áætlun um kostnað við uppbyggingu er um 125 milljónir króna. Verkefnastjóri ferðamála mælir með því að rekstur verði boðinn út á svæðinu,“ segir í minnisblaði verkefnastjórans á fundinum.

Menningar- og atvinnuráð óskar eftir að verkefnastjóri viðskiptaþróunar og verkefnastjóri ferðamála vinni nánari greiningu á staðsetningu, rekstri og kostnaði fyrir næsta fund menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.

„Grundvallarþjónusta að hvert bæjarfélag reki tjaldsvæði“

Við umræður um tjaldstæði í Reykjanesbæ á síðasta fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar bókaði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, um málið. Þar segir:

„Miðflokkurinn fagnar í raun þessum frábæru tillögum og er í raun óskiljanlegt að það skuli ekki vera nú þegar til aðstaða fyrir þennan markhóp. Það er grundvallarþjónusta að hvert bæjarfélag reki tjaldsvæði. Slíkt eflir og frjóvgar hvert samfélag, eykur þjónustu og listalíf. Það er öllum til hagsbóta að þessi hugmynd verði að veruleika fyrir næsta sumar.

Að leggja í markaðsátak eins og gert var nú í sumar með útsvarstekjum Reykjanesbúa er skot út í myrkrið ef ekki er til staðar tjaldsvæði fyrir Íslendinga á faraldsfæti með hjólhýsi, fellihýsi eða tjöld. Ekki er hægt að einblína bara á hótelin í bænum, þó þau gegni mikilvægu hlutverki fyrir okkur öll. Reykjanesbær verður að standa undir merki að geta boðið upp á margvíslega gistimöguleika eins og t.d. Árborg sem er með framúrskarandi tjaldstæði sem hefur sett það sveitarfélag í fyrsta flokk þegar kemur að Landsmótum UMFÍ, hestamannamótum og fleiri landsviðburðum.“

Vilja aðkomu Reykjanesbæjar að 3.000 fermetra tjaldstæði í Innri-Njarðvík

Happy Campers hefur sent bæjarráði Reykjanesbæjar erindi vegna fyrirhugaðrar opnunar á tjaldstæði að Stapabraut 21 í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hyggur á að opna um 3.000 fermetra tjaldstæði vorið 2021 sem er hugsað fyrir bæði ferðabíla með og án rafmagns og fyrir tjöld. Hugmyndin gerir ráð fyrir að hægt sé að stækka tjaldstæðið á auðveldan hátt ef eftirspurn verði meiri.

Eigendur fyrirtækisins telja að rekstur tjaldstæðis fari vel með rekstri ferðabílaleigunnar þar sem fyrirtækið starfi nú þegar í ferðaþjónustu og geti samnýtt ýmsa þætti sem það hefur nú þegar. Tjaldstæðið sé hugsað fyrir alla ferðamenn og verði auglýst þannig á miðlum Happy Camper sem og á sér heimasíðu.

Með erindi til Reykjanesbæjar sé verið að óska eftir mögulegri aðkomu bæjarins að uppbyggingu og rekstri þessa tjaldsvæðis. „Með aðkomu bæjarins að tjaldsvæðinu teljum við að sveitarfélagið yrði samkeppnishæfara og Reykjanesbær yrði skemmtilegri áfangastaður,“ segir í erindi fyrirtækisins til bæjarráðs.

Verkefnastjóra viðskiptaþróunar og verkefnastjóra ferðamála hjá Reykjanesbæ hefur verið falið að taka upp viðræður við Happy Campers um aðkomu Reykjanesbæjar að uppbyggingu og rekstri tjaldsvæðis. Í kjölfarið er óskað eftir greiningu á áhrifum aðkomu Reykjanesbæjar með tilliti til samkeppni og jafnræðisreglu. Umsögn verður skilað til bæjarráðs, segir í afgreiðslu bæjarráðs Reykjanesbæjar.