Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Lögreglan óttast slys á rafhlaupahjólum
Að tvímenna á rafhlaupahjóli er stranglega bannað. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 17. júní 2022 kl. 08:37

Lögreglan óttast slys á rafhlaupahjólum

Nú þegar skólabörnin eru komin í sumarfrí fer varla framhjá neinum allur sá fjöldi barna sem þýtur um á rafhlaupahjólum úti í umferðinni. Rafhlaupahjól eru sniðug farartæki sem henta mörgum til að ferðast innanbæjar en þau eru jafnframt varasöm í höndum þeirra sem hafa ekki náð þeim þroska sem þarf til að stýra slíkum farkosti – en hvað er það helsta sem þarf að varast til að koma í veg fyrir alvarleg slys á þessum ungu vegfarendum? Víkurfréttir leituðu til lögreglunnar á Suðurnesjum til að fá svör við því. Kristján Freyr Geirsson sat fyrir svörum en hann er kannski betur þekktur sem Krissi lögga og hefur sinnt forvarnarstarfi hjá lögreglunni undanfarin ár.

Krissi lögga horfir vökulum augum út í umferðina – alltaf á vaktinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Já, við höfum orðið vör við mikla aukningu á notkun rafhlaupahjóla meðal skólabarna í umferðinni,“ segir Krissi og bætir við að lögreglan óttist mjög að slys eigi eftir að gerast fyrr en síðar.

„Við erum jafnvel að sjá börn sem eru að ljúka fyrstu stigum grunnskóla komin á svona tæki. Það segir sig sjálft að börn á þessum aldri hafa ekki náð þeim þroska sem þarf til að stýra slíku ökutæki í umferðinni. Þessi hjól eru leyfileg fyrir allt að 25 kílómetra hraða á klukkustund en í sumum tilfellum er búið að eiga við hjólin og þau geta farið mun hraðar – og jafnvel þótt krakkarnir aki um á löglegum hámarkshraða er það heilmikil ferð fyrir lítt eða óreynda ökumenn.“

Reglur um notkun rafhlaupahjóla

Á vef Samgöngustofu kemur fram að slíkum farartækjum megi þó ekki aka á akbraut, aðeins á gangstígum, en þau lúta að öðru leyti sömu reglum og reiðhjól, t.d. er mikilvægt að huga vel að öryggi hjólreiðamanna og að taka tillit til gangandi vegfarenda. Þá er sérstaklega tekið fram að börn og ungmenni undir sextán ára aldri eiga skv. lögum alltaf að nota hjálm við hjólreiðar en mælt er með að allir noti hjálm á rafhlaupahjóli öryggisins vegna.

Samkvæmt umferðarlögum er ekkert aldurstakmark á vélknúin hlaupahjól en ávallt skal fara eftir þeim viðmiðum og leiðbeiningum sem framleiðandi hjólsins leggur til. Í stuttri könnun sem Víkurfréttir gerðu á vefjum nokkurra fyrirtækja sem selja rafhlaupahjól kom í ljós að langflestum tilvikum taka seljendur ekki fram fyrir hvaða aldur hjólin eru ætluð. Krissi bendir hins vegar á að aldurstakmark á rafmagnsvespur sé þrettán ár og þau séu í flokki léttra bifhjóla I.

„Ábyrgð foreldra er mikil í þessum efnum,“ segir Krissi. „Við fylgjum oftast börnunum okkar í skólann á fyrsta skólaári til að kenna þeim hvernig þau eigi að bera sig að í umferðinni. Börn sem er nýbúin að læra hvernig eigi að fara yfir götu eru engan vegin í stakk búin til að ferðast um á rafknúnum hjólum, það liggur í augum uppi.

Svo spyr maður sig hvort krakkarnir viti yfir höfuð hvaða reglur eigi við um slíka farkosti. Við sjáum aftur og aftur sömu reglurnar brotnar; krakkar eru að aka um á akbrautum innan um bíla og að reiða félaga sína á hjólunum en slíkt er bannað enda hjólin ekki útbúin fyrir farþega. Ég skal taka dæmi. Við horfðum út um gluggann á lögreglustöðinni um daginn og sáum þar ungling á rafmagnsvespu. Hann var með allt sitt á hreinu, var með hjálm og ók eftir gangstígnum. Hér fyrir aftan stöðina hitti hann félaga sinn og þeir tóku tal saman. Síðan stökk félaginn á bak og þeir þutu í burtu. Þetta gerðist á lóð lögreglunnar! Annað hvort þekkti viðkomandi ekki reglurnar eða að honum var bara alveg sama.

Foreldrar þurfa að brýna reglurnar fyrir börnunum og jafnvel hafa vit fyrir þeim. Jafnvel þótt vinirnir séu á rafhlaupahjóli þurfa foreldrar stundum að stíga á bremsuna og taka óvinsælar ákvarðanir, það er hlutverk þeirra í uppeldinu.“

Lúlli löggubangsi hefur aðstoðað Krissa við miðla umferðarfræðslu til grunnskólabarna í mörg ár.

Leiðbeiningar um notkun vélknúinna hlaupahjóla á íslensku, ensku og pólsku.
Instructions on the use of motorized scooters in Icelandic, English and Polish.
Instrukcja użytkowania skuterów zmotoryzowanych w języku islandzkim, angielskim i polskim.

Aðgát í umferðinni

Ökumenn bifreiða þurfa að vera vel á verði nú þegar mjög ungir stjórnendur rafknúinna hlaupahjóla eða rafmagnsvespa eru á ferð í umferðinni. Þetta eru reynslulitlir ökumenn og það fer yfirleitt lítið fyrir þeim en geta þurft að fara yfir akbrautir í veg fyrir aðra umferð – slysin gera ekki boð á undan sér.