Fréttir

Lögð verði enn meiri áhersla á þverfaglegt samstarf allra
Laugardagur 7. maí 2022 kl. 08:13

Lögð verði enn meiri áhersla á þverfaglegt samstarf allra

Skólaforðun var til umræðu á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar þar sem Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi gerði grein fyrir málinu. Lögð var fram samantekt grunnskólafulltrúa og yfirsálfræðings skólaþjónustu vegna fyrirspurnar frá kjörnum fulltrúa í fræðsluráði um umfang og ástæður skólaforðunar nemenda í grunnskólum.

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:

„Í aðalnámsskrá grunnskóla er fjallað um jöfn tækifæri barna til náms. Eins og Umboðsmaður barna benti á árið 2018 og með tilliti til Barnasáttmála og skólaskyldu innan aðildarríkjanna, er mikilvægt að skoða hvað við getum gert til að halda börnum inni í skólasamfélaginu.

Með spurningum mínum var markmiðið að skoða hvort frekar væri um að ræða börn með einhverfu, geðrænan vanda eða aðrar raskanir sem mæti ekki í skólann svo mánuðum skipti og geti þá verið upphaf að enn stærri vanda.

Það er von mín að þetta sé aðeins upphaf á því að skólastjórnendur hafi rýnt hópinn sinn og að fræðslusvið taki þessa vinnu áfram. Mikilvægt er að við notum tæknina og það sem þarf til að hvetja börn til skólasóknar.“

Fræðsluráð Reykjanesbæjar hvetur til þess að lögð verði enn meiri áhersla á þverfaglegt samstarf allra sem koma að menntun og velferð barna til að sporna við skólaforðun nemenda í grunnskólum. Ennfremur er lagt til að við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2023 verði gert ráð fyrir stöðugildum skólafélagsráðgjafa.