Fréttir

Ljósanótt sett degi fyrr en venjulega
Þriðjudagur 21. ágúst 2018 kl. 16:01

Ljósanótt sett degi fyrr en venjulega

„Bæjarbúar verða virkari með hverri Ljósanæturhátíðinni sem líður og hún því orðin sannkölluð þátttökuhátíð. Styrktaraðilar standa líka þétt við bakið á henni og gera okkur kleyft að halda þessa glæsilegu hátíð,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi um Ljósanótt sem verður sett miðvikudaginn 29. ágúst kl. 16:30 í Skrúðgarði. Skrifað var undir samninga við styrktaraðila í Ráðhúsi í morgun og fulltrúar stærstu dagskrárliða kynntu viðburði, ásamt menningarfulltrúa.
 
Ljósanótt verður nú haldin í 19. sinn. Undirbúningur er nú í hámarki og dagskráin á vef Ljósanætur að taka á sig skýra mynd. Bæjarbúar geta gengið að föstum dagskrárliðum vísum, margir eru nýir og einhverjir að ganga í endurnýjun lífdaga, eins og akstur fornbíla niður Hafnargötu. Setningarathöfnin verður á sínum stað, en er nú orðin að fjölskylduhátíð síðdegis á upphafsdegi hátíðar. Strax fyrsta kvöldið verður fimm daga hátíðardagskrá keyrð í gang með frumsýningu tónlistarsýningarinnar Með diskóblik í auga í Andrews Theater og opnun verslana fram eftir kvöldi.
 
Eitt ár á Suðurnesjum – Ljósanætursýningin í ár
 
Sem fyrr munu opnanir sýninga einkenna dagskrá fimmtudagsins. Bærinn fyllist af fólki sem finnst stemmning þessa dags ómissandi liður í hátíðinni. Bæjarbúar taka einnig virkan þátt í Ljósanætursýningu Listasafns Reykjanesbæjar í ár með sýningunni“ Eitt ár á Suðurnesjum.“ Þar verða sýndar ljósmyndir almennings sem sýnir lífið á Suðurnesjum frá 17. júní 2017 til 17. júní 2018.
 
„Sýningahald Ljósanætur sem hefur verið eitt af aðalsmerkjum hátíðarinnar en á fjórða tug list- og handverkssýninga hafa verið skráðar til leiks. Þessi dagur er orðinn nokkuð stór, ekki síst hjá heimafólki og má sjá alls kyns hópa, svo sem saumaklúbba og vinnustaði gera sér glaðan dag. Sýningar eru þræddar og verslanir kannaðar en þess má geta að verslanir og veitingahús eru með góð tilboð í gangi alla helgina,“ segir Valgerður um bæjarbraginn.
 
Heimatónleikar í gamla bænum á föstudegi Ljósnæturhátíðar hafa slegið rækilega í gegn og komast færri að en vilja. Fleiri gestgjafar eru nú en áður og gamli bærinn farinn að teygja sig úr elsta hlutanum yfir í yngri bæjarkjarna sem er vel. Þá verður bryggjuballið á sínum stað og kjötsúpan frá Skólamat, sem hefur yljað og mettað Ljósanæturgesti í áraraðir.
 
Laugardagur Ljósanæturhátíðar
 
Engum ætti að leiðast á laugardegi Ljósanætur sem er aðal dagur hátíðarinnar með standandi dagskrá frá morgni til kvölds. Aðalsmerki Ljósanætur er Árgangagangan sem er einstök á landsvísu. Þar hittast árgangarnir á Hafnargötu og ganga í skrúðgöngu niður á hátíðarsvæði framan við aðalsvið. „Síðan taka við hinir ýmsu viðburðir, tónleikar, sýningar, barnadagskrá o.fl. Íbúar fara síðan flestir hverjir heim til að borða og eru súpuboð haldin í öðru hverju húsi fyrir vini og ættingja. Að því loknu er fjölmennt framan við hátíðarsviðið til að taka þátt í Stórtónleikum Ljósanætur, sem eru hápunktur hátíðarhaldanna. Í ár koma fram Jói P og Króli, Áttan, Stjórnin og Bjartmar Guðlaugsson.  Auðvitað er kvöldið toppað með stórglæsilegri flugeldasýningu og að henni lokinni eru ljósin á Berginu kveikt, en af þeim dregur hátíðin einmitt nafn sitt. Ljósin loga svo fram á vor og varpa hlýlegri birtu yfir Stakksfjörðinn á sama tíma og skammdegið bankar upp á,“ segir Valgerður.
 
Á sunnudegi eru allar sýningar enn opnar ásamt leiktækjum og sölutjöldum og þá getur fólk komist yfir það sem það átti eftir. Þá eru einnig viðburðir í Höfnum m.a. tónleikar með Magnúsi og Jóhanni ásamt Elizu Newman í Kirkjuvogskirkju og tvennir tónleikar Með diskóblik í auga í Andrews Theater.
 
Dagskrá Ljósanæturhátíðar er í heild sinni á http://ljosanott.is

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024