Fréttir

Lenti á Keflavíkurflugvelli vegna tilkynningar um lausan eld
Þriðjudagur 10. júlí 2018 kl. 11:15

Lenti á Keflavíkurflugvelli vegna tilkynningar um lausan eld

Viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna þotu American Airlines. Þotunni hafði verið snúið til Keflavíkurflugvallar eftir að boð komu upp í vélinni sem gáfu til kynna að eldur væri laus í vélinni. Lendingin gekk vel og farþegarnir bíða nú í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að geta haldið ferðalagi sínu áfram.
 
Þotan var á leið frá Bandaríkjunum til Frakklands en áfangastaðurinn var París. Um borð voru samtals 224 manns en farþegaþotan lenti á Keflavíkurflugvelli rétt rúmlega sjö í morgun. Engin eldur var í vélinni en viðvörunarkerfi þotunnar lét eins og eldur væri laus.
 
Önnur þota frá American Airlines er á leiðinni til landsins til að sækja farþegana og koma þeim á áfangastað í París.
 
Þotan með bilaða brunaboðann er hins vegar geymd á svæði á Keflavíkurflugvelli sem ætlaður er flugvélum með hættulegan farm.
 
Á meðfylgjandi myndum má sjá þotuna. VF-myndir: Hilmar Bragi

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs