Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lengsta samfellda opnun Hérastubbs bakara í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 3. nóvember 2024 kl. 07:00

Lengsta samfellda opnun Hérastubbs bakara í Grindavík

„Ég vil hvergi annars staðar vera,“ segir Sigurður Enoksson, bakarameistari í Hérastubbi bakarí í Grindavík. Siggi er búinn að vera með þeim duglegri í Grindavík síðan bænum var lokað og hefur þurft að byrja sjö sinnum aftur með rekstur eftir rýmingar. Nú er búið að opna bæinn og Hérastubbur sér fram á bjartari tíma en hann hefur staðið í stappi við Vegagerðina vegna skiltis sem vísaði á bakaríið.

„Við vorum með skilti upp á Grindavíkurvegi en Vegagerðin tók það niður en ég setti það jafnharðan upp aftur. Það var aftur fjarlægt og ég hef ekki fengið það til baka en vonast eftir að fá skiltið sem fyrst og geti sett það upp. Reyndar var sett annað merki með kringlu á fyrsta ljósastaurnum við hringtorið, það getur bæði vísað til umferðartorgs en líka á bakarí. Útlendingarnir nota samt allir Google maps, það vísar leiðina til mín og ég hef orðið var við meiri umferð útlendinga síðan bærinn opnaði á mánudaginn. Miðvikudagarnir hafa verið flottir að undanförnu því þá er alltaf eitthvað í gangi í Kvikunni og margir Grindvíkingar koma til bæjarins og kíkja þá við hjá mér. Auðvitað er þetta ekki eins og þetta var fyrir rýmingu, það vantar auðvitað allt fólk inn í bæinn, það var alltaf örtröð alla morgna þegar krakkarnir í skólanum komu við og keyptu nestið sitt en við ætlum að halda átrauð áfram, við viljum hvergi annars staðar vera en í Grindavík. Ég væri til í að geta leigt íbúðarhúsnæði í Grindavík, ég er orðinn leiður á keyrslunni úr Kópavogi en húsið mitt er dæmt ónýtt og ég hef fengið það greitt út. Best væri að geta flutt aftur heim og við munum gera það á endanum.“

Siggi var á fundi atvinnurekenda með þingmönnum og ráðherrum um daginn og bíður eftir svörum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Auðvitað verðum við að fara fá svör og ég skil ekki nýjustu pælinguna, við eigum að geta fengið lánað allt að 49 milljónir en við verðum að hafa tekjur til að borga af láninu. Ég sé ekki hvernig þetta á að geta hjálpað mörgum aðilum.Ég skulda sem betur fer lítið sem ekkert og við erum bara þrjú að vinna hér, konan og sonurinn er með mér.

Við ætlum að halda ótrauð áfram og annasamur tími er framundan. Við verðum með fullt af nýjungum fyrir jólin, t.d. jólakleinur en mikið af vörunum okkar er án mjólkur og eggja, ekki beint vegan en mjög margir vilja sneiða fram hjá mjólkurvörum og eggjum. Ég er alltaf að hvetja til þess að verðkönnun sé gerð á meðal bakaría, við erum með mjög hagstæð verð og flytjum fullt af vörum á höfuðborgarsvæðið. Þetta gengur einhvern veginn upp hjá okkur, Vísir og Einhamar versla helling af okkur, Skólamatur sömuleiðis en auðvitað vantar okkur fastakúnnanna. Nú er bærinn samt opnaður og ég á von á aukningu ferðafólks til Grindavíkur og mun taka vel á móti þeim,“ sagði Sigurður.