Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Léleg makrílvertíð á enda
Laugardagur 14. september 2019 kl. 12:36

Léleg makrílvertíð á enda

Nú má segja að haustið sé komið og veturinn framundan þegar Ljósanæturveislan er búin.  Þó svo að þessir pistlar einblíni á útgerð, sjósókn og allt sem tengist bátum og veiðum þá er hægt að tengja þessa hátíð, Ljósanótt, við þessa pistla.

Hátíðin var ansi góð en því miður gerðust atburðir um kvöldið þegar flugeldasýninginn átti að byrja sem vekja nokkra athygli. Þegar búið var að telja niður í að sýningin myndi byrja; 10, 9, 8, 7, 6, 5, 4, 3, 2, 1, búmm ... En það varð ekkert búmm því lítill bátur sigldi út úr Grófinni og beint inn á öryggissvæðið, hluti af sýningunni var að skjóta sprengjum út í sjó og láta þær springa þar.

Public deli
Public deli

En jæja, sýningin hófst að lokum en stóð aðeins í tæpar tvær mínútur og þá þurfti að stoppa aftur. Í þetta skiptið þá voru það ekki einn, heldur tveir litlir bátar sem fóru út og þar með þurfti að stoppa flugeldasýningina öðru sinni.

Maður má víst ekki blóta í þessum pistlum né í skrifum á Aflafrettir.is, en svona hátterni er með öllu óskiljanleg. 

Vonandi kemur svona lagað ekki fyrir aftur.

Nóg um Ljósanóttina. Förum aðeins út í bátana og veiðar. Makrílvertíðin er búin en hún var frekar léleg svo ekki sé meira sagt. Meira segja núna eru bátar í Njarðvík sem voru settir á flot eða gerðir klárir til veiða, t.d. Stakkavík GK sem var sett á flot en landaði ekki einum fiski af makríl. Sama má segja um bát sem heitir Rokkarinn GK, hann náði aðeins að landa 596 kílóum úr einni sjóferð. 

Netabátarnir byrjuðu strax veiðar sem hafa gengið mjög vel. Bergvík GK hefur t.d. landað 10,7 tonnum í aðeins tveimur róðrum. Maron GK 14,8 tonnum í fjórum. Halldór Afi GK 10 tonn í fimm og mest 5,7 tonn. Sunna Líf GK 6,1 tonn í þremur, bæði í þorskanet og skötuselsnet. Hraunsvík GK 5,7 tonn í fjórum. Grímsnes GK er áfram að eltast við ufsann og hefur landað 26 tonnum í tveimur róðrum.

Hjá dragnótabátunum byrja systurbátarnir Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK mjög vel. Siggi Bjarna GK er kominn í 78 tonn í fjórum róðrum og mest 20 tonn og Benni Sæm GK 71 tonn í fjórum og mest 29 tonn.  

Enn sem komið er er enginn minni línubátur að veiða frá Suðurnesjum en Margrét GK hefur þó farið einn prufutúr og landaði 1,5 tonn í einni löndun.  

Af og til í þessum pistlum hefur verið minnst á slippinn í Njarðvík um bátana sem þar voru. Einn af þeim bátum sem þar voru lengst allra var báturinn Sævík GK sem Vísir ehf. í Grindavík á. Sævík GK hét áður Óli Gísla GK og var gerður út frá Sandgerði. Voru nokkuð miklar breytingar gerðar á bátnum, m.a. var hann lengdur um 1,7 metra. Þurrpústinu var breytt á ansi merkilegan hátt, því þurrpústið gekk út úr bátnum á stjórnborða og það þýddi að við löndun var reykurinn frá vélinni á bryggjunni. Var pústinu breytt þannig að langt og mikið rör var leitt yfir bátinn og út bakborðsmeginn. Svolítið sérstakt að sjá þetta. Sömuleiðis var skipt um lit á bátnum og fór hann úr því að vera blár yfir í það að vera grænn. Eitt er nokkuð merkilegt við þessa lengingu á bátnum og sýnir kannski hversu ruglað þetta mælingakerfi er. Skráð lengd á bátnum núna er 11,99 metrar en mesta lengd á bátnum er um 14,8 metrar. Stærðartala bátsins miðast við skráða lengd en ekki mestu lengd. Þetta sést ansi vel þegar að báturinn er skoðaður aftan frá því þá sést gríðarlega stór hluti bátsins sem er útaf stýrinu og skrúfunni.