Fréttir

Laxdæla á Instagram hlaut Hvatningarverðlaunin
Kristín Þóra Möller, Esther Elín Þórðardóttir (var ekki viðstödd) og Brynja Ýr Júlíusdóttir, kennarar í Akurskóla, hlutu Hvatningarverðlaunin fyrir Instagram-verkefni úr Laxdælu. Valgerður Björk Pálsdóttir, formaður Fræðsluráðs, afhenti þeim viðurkenninguna.
Sunnudagur 20. júní 2021 kl. 07:45

Laxdæla á Instagram hlaut Hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn þann 9. júní síðastliðinn. Alls bárust 25 ábendingar að þessu sinni og voru verkefnin fjölbreytt að vanda. Kristín Þóra Möller, Esther Elín Þórðardóttir og Brynja Ýr Júlíusdóttir sem eru kennarar í Akurskóla hlutu Hvatningarverðlaunin að þessu sinni fyrir Instagram-verkefni úr Laxdælu.

Í verkefninu er Laxdæla túlkuð af nemendum með Instagram-færslum og myndum. Nemendur bregða sér í hlutverk aðalpersóna í Laxdælu og skrifa söguna með Instagram-færslum. Hugmyndaflugið fær að ráða för sem gerir það að verkum að nemendur eru stoltir og áhugasamir um verkefnið. Nálgunin mætir nemendum á þeirra áhugasviði og þeirra miðli. Verkefnið fær nemendur til að rýna betur í söguna og setja sig í spor persónanna. Instagram-reikningar nemenda bera heiti eins og: official.kjartan.olafsson, bolli_thorleiksson og gudrun.osvifursdottir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tvö önnur verkefni hlutu einnig viðurkenningu en það voru verkefnin Söngleikurinn Mamma Mía sem settur var upp með nemendum í 8.–10. bekk í Heiðarskóla og Daníella Holm Gísladóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Esther Níelsdóttir og Hjálmar Benónýsson stóðu að og einnig Seesaw-verkefni í Stapaskóla en þar finnur kennarinn Rebekka Rós Reynisdóttir fjölbreyttar leiðir til að mæta mismunandi þörfum nemenda sinna.

Daníella Holm Gísladóttir, Guðný Kristjánsdóttir, Esther Níelsdóttir og Hjálmar Benónýsson stóðu að söngleiknum Mamma mia.

Valgerður Björk Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs, lagði í ávarpi sínu áherslu á nemendalýðræði og mikilvægi þess að hlusta á og spyrja nemendur um hvað þeim finnist mega gera betur í skólakerfinu. Besta leiðin til að gera börn og unglinga að lýðræðislegum borgurum er að gera þeim yfirhöfuð mögulegt að vera lýðræðislegir borgarar. Þess vegna mun Reykjanesbær halda ungmennaþing í september 2021 þar sem 100 nemendur úr 8.–10. bekk grunnskóla Reykjanesbæjar og sextán til átján ára nemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja koma saman einn dag í Stapa og rökræða um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir börnum og unglingum.

Rebekka Rós Reynisdóttir fékk viðurkenningu fyrir Seesaw-verkefni í Stapaskóla.

Á þinginu verða börnin m.a. spurð að því hvað þau vilja hafa áhrif á innan sveitarfélagsins, hvernig þeim henti best að koma skoðunum sínum á framfæri og hvernig sveitarfélagið ætti almennt að standa að samráði við ungt fólk. Markmið þingsins er einnig að teikna upp mynd af sveitarfélaginu með augum yngstu íbúanna og skapa samræðugrundvöll milli þeirra, stýrihóps verkefnisins og starfsmanna Reykjanesbæjar

Á undan afhendingu Hvatningarverðlaunanna voru undirritaðir samningar vegna verkefna sem hljóta styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs í ár. Um er að ræða 21 verkefni og er þetta  í annað sinn sem úthlutað er úr Nýsköpunar- og þróunarsjóðnum.