Fréttir

Landris við Þorbjörn og Fagradalsfjall og jörð skelfur
Laugardagur 14. maí 2022 kl. 13:01

Landris við Þorbjörn og Fagradalsfjall og jörð skelfur

Landris er við Þorbjörn og Fagradalsfjall. Um 400 jarðskjálftar hafa orðið á Reykjanesskaganum frá miðnætti og 900 skjálftar hafa orðið síðasta sólarhringinn.

Jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga. Fimm skjálftar yfir 3 að stærð mældust við Reykjanestá í gær. Kl. 19:28 varð skjálfti 3,2 að stærð, kl. 17:04 3,1 að stærð, kl. 16:41 3,3 að stærð, kl. 15:41 3,5 að stærð og kl. 11:09 í gærmorgun mældist skjálfti af stærðinni 3,4 á sömu slóðum.

Í frétt á vef Veðurstofu Íslands sem var birt í lok síðasta mánaðar kom fram að GPS mælanetið á Reykjanesskaganum sem nemur færslur á yfirborði jarðar sýnir þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunnar á talsverður dýpi við Fagradalsfjall. GPS stöðvar í nágrenni við Þorbjörn hafa á síðustu tveimur vikum sýnt breytingar sem benda til lítilsháttar þenslu við Svartsengi. „Þessar færslur sem við sjáum eru ennþá litlar, í kringum 10-15 mm þar sem þær eru mestar,“ segir Benedikt G. Ólafsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands, en Benedikt í samvinnu við Jarðvísindastofnun Háskólans fylgist náið með jarðskorpuhreyfingum á svæðinu. „Færslan sem við greinum nú svipar til þeim sem við greindum á sömu slóðum fyrri hluta árs 2020,“ segir Benedikt.

InSAR gervitunglamyndir sem spanna tímabilið 29. apríl - 7. maí og 21. apríl – 8. maí, sýna sambærilegar breytingar og mælst hafa á GPS stöðvunum.

„Það sem við höfum lært af eldsumbrotunum á Reykjanesskaga er að aukning í skjálftavirkni og aflögun getur verið fyrirvari eldgoss, en þá er það alls ekki alltaf raunin,“ segir Michelle Maree Parks, en Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar, sem fylgist meðal annars með landrisi.

„Eins og oft áður þurfum við hreinlega að sjá hver þróunin verður. Við erum að keyra líkön til að meta t.d. á hvaða dýpi kvikan er á þessu tiltekna svæði. Eins eigum við von á nýjum InSAR myndum síðar í mánuðinum og þær eru hluti af þeim gögnum sem við munum vinna úr til að átta okkur betur á þróuninni á svæðinu við Svartsengi,“ segir Michelle í færslu á vef Veðurstofu Íslands.