Fréttir

Land rís við Keili og Fagradalsfjall
Miðvikudagur 17. nóvember 2021 kl. 14:58

Land rís við Keili og Fagradalsfjall

- Líklegasta skýringin talin vera kvikusöfnun

Nýjustu gervitunglagögn sýna að land er farið að rísa að nýju við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Landrisið nær norður af Keili suður fyrir gosstöðvarnar. Líkanreikningar benda til þess að upptök þess séu á miklu dýpi og er líklegasta skýringin talin vera kvikusöfnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Samfara eldgosinu við Fagradalsfjall seig land umhverfis eldstöðvarnar líklega vegna kviku sem streymdi úr kvikugeymi. Í lok ágúst sást á GPS mælum að farið var að draga úr siginu og upp úr miðjum september var sigið farið að snúast í landris. Risið er mjög lítið eða einungis um 2 sm þar sem það er mest.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Staðan við Fagradalsfjall

Frá 18. september til dagsins í dag hefur ekki sést í hraunflæði frá gígnum í Fagrdalsfjalli. Enn mælist gas en í mjög litlu magni.

Samfara eldgosinu seig land umhverfis eldstöðvarnar líklega vegna kviku sem streymdi úr kvikugeymi. Í lok ágúst sást á GPS mælum að farið var að draga úr siginu og upp úr miðjum september var sigið farið að snúast í landris. Risið er mjög lítið eða einungis um 2 sm þar sem það er mest. Nýjustu gervitunglagögn sýna að landrisið nær norður af Keili suður fyrir gosstöðvarnar. Líkanreikningar benda til þess að upptök þess séu á miklu dýpi og er líklegasta skýringin talin vera kvikusöfnun.

Ekki er ólíklegt að kröftug jarðskjálftahrina sem hófst í lok september við suðurenda Keilis og stóð yfir í um mánuð, tengist landrisinu, þó engin aflögun á yfirborði hafi sést í tengslum við þá hrinu, sem væri merki um að kvika hafi færst nær yfirborðinu.

Ekki er óalgengt að kvikusöfnun eigi sér stað undir eldstöðvakerfum í kjölfar eldgosa. Þetta landris þarf ekki því ekki að vera vísbending um að kvika leiti til yfirborðs á næstunni og vel hugsanlegt að um sé að ræða atburðarás sem tekur ár eða áratugi, en erfitt er að spá fyrir um framvindu á þessu stigi.

Áfram verður fylgst náið með þróun mála við Fagradalsfjall.