Fréttir

Lághitaveita í Rockville
Föstudagur 4. október 2024 kl. 06:08

Lághitaveita í Rockville

Búnaður fyrir lághitaveituna væntanlegur á næstu vikum – Hita upp ferskvatn með 70 gráðu heitum jarðsjó

„ Við reiknum með að þessi hitaveituhola sem boruð var í Rockville breyti miklu fyrir svæðið. Hún dugar ekki fyrir fullri starfsemi en breytir miklu varðandi hættu af frostskemmdum. Það er mikil vinna í þessu núna,“ segir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, um virkjun lághitaveitu í Rockville á Miðnesheiði.

Fyrir tilstuðlan almannavarna voru boraðar þrjár holur í leit að lághita til að koma upp varahitaveitu á Suðurnesjum. Holan í Rockville er afkastamest þeirra þriggja og skilar um þrjátíu sekúndulítrum af um sjötíu gráðu heitu vatni.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Búnaður og annað sem þarf við holuna verður kominn eftir sex til sjö vikur. Þá á eftir að reyna á það hvað við fáum mikinn hita úr holunni þegar varmaskiptar og annar búnaður er kominn,“ segir Víðir. Hann segir ferlið flókið þar sem unnið er með jarðsjó. Jarðsjórinn verður notaður til að hita upp ferskvatn í varmaskiptum. Koma þarf ferskvatni á staðinn og koma affallinu til sjávar. Víðir segir hluta af verkefninu vera að nýta lagnir sem eru til staðar en einnig að leggja nýjar lagnir til og frá Rockville.

Fyrr á árinu var borað eftir fersku köldu vatni við Árnarétt í Garði til að koma upp varavatnsveitu. Það ferskvatn verður þó ekki notað til upphitunar í Rockville. Ferskvatnið verður áfram fengið úr Lágum. „Ef við missum það getum við tengt okkur við vatnsbólið í Garði,“ segir Víðir.

Boraðar voru þrjár holur í leit að lághita. Holan í Rockville er gjöfulust þeirra allra. Þó er ekki útilokað að nota hinar tvær með varmaskiptatækninni. Þá er að sögn Víðis einnig verið að skoða rafkatla til upphitunar á ferskvatni.