Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Kylfingur við 18. flötina á Hólmsvelli
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 3. júní 2022 kl. 17:41

Kylfingur við 18. flötina á Hólmsvelli

Kylfingur, listaverk eftir Helga Valdimarsson, listamann úr Suðurnesjabæ, var settur upp á Hólmsvelli í Leiru í gær. Kylfingur horfir yfir 18. flötina og út á Hólmsvöll en hann trónir á klettahól við flötina og klúbbhúsið og tekur á móti kylfingum þegar þeir ljúka leik. Listaverkið er á stalli og sést einnig víðar frá af golfvellinum, frá klúbbhúsinu og Garðveginum.

Listaverkið er gefið af Páli Ketilssyni og fjölskyldu en hann fékk golfbakteríuna á Hólmsvelli fyrir fimmtíu árum og hefur verið félagi í Golfklúbbi Suðurnesja alla tíð. Páll er eigandi Víkurfrétta og hluti af miðlum VF er golfsíðan kylfingur.is.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

GS félagarnir Örn Bergsteinsson og Gísli Grétar Björnsson aðstoðuðu Pál við uppsetningu listaverksins. Þeir steyptu stall undir Kylfing svo hann gæti staðið hátt og vel sýnilegur. Nota þurfti öflugan kranabíl til að koma styttunni sem er um 400 kg. á sinn stað. Það gekk vel og nú fylgist Kylfingur með kylfingum ljúka leik á Hólmsvelli og hvetur þá til að taka mynd af sér við hann og setja myllumerkið #kylfingur

Páll og Helgi listamaður sem gerði Kylfing.

Það var gott að hafa fleiri hendur þegar steypa þurfti stall undir listaverkið og síðan að koma því á staðinn. F.v.: Örn, Vigfús, Helgi, Páll og Gísli Grétar.

Björn Marteinsson, vörubílstjóri í Reykjanesbæ flutti listaverkið frá heimili listamannsins í Garði út á Hólmsvöll í Leiru.



Helgi Valdimarsson hefur gert mörg listaverk úr steypu og nokkur þeirra má sjá í hans heimabæ, Garðinum í Suðurnesjabæ. Hér er hann að setja lokahönd á verkið.