BAUN
BAUN

Fréttir

Krefur Umhverfisstofnun svara vegna öskurhátalara í íslenskri náttúru
Myndin sem Ellert tók í Kálfshamarsvík
Fimmtudagur 16. júlí 2020 kl. 15:25

Krefur Umhverfisstofnun svara vegna öskurhátalara í íslenskri náttúru

Ellert Grétarsson, unnandi íslenskrar náttúru, hefur sent Umhverfisstofnun erindi vegna nýjasta markaðsátaks Íslandsstofu. Í átakinu hefur öflugum hátölurum verið komið fyrir í íslenskri náttúru á nokkrum stöðum og þar geta ferðamenn spilað öskurhljóð.

Erindi Ellerts til Umhverfisstofnunar er hér að neðan:

Sólning
Sólning

Fyrir stuttu var ég staddur í Kálfshamarsvík að fylgjast með sólsetrinu og taka myndir á ólýsanlega fallegu, íslensku sumarkvöldi. Eins og þau gerast best. Meðfylgjandi mynd tók ég á staðnum og lýsir hún stemmningunni ágætlega. Þarna var blankalogn, gullfallegt sólsetur, firnafallegt umhverfi, kyrrlátt og friðsælt þar sem ekkert heyrðist nema yndisleg hljóðin í fuglunum og seiðandi gjálfur öldunnar í fjöruborðinu. Ég var eina manneskjan á staðnum, ekki einu sinni einn bíll uppi á vegi. Þetta var mögnuð náttúruupplifun og sjaldan sem ég hef orðið fyrir jafn miklum hughrifum í íslenskri náttúru og einmitt þetta kvöld. Þetta var eitt af þessum sumarkvöldum þegar maður tímir ekki að fara að sofa. Þessir náttúrutöfrar, sköpunarverkið í sinni fallegustu mynd. Aleinn með sjálfum sér og Guði í friðsældinni og kyrrðinni. Eins og að vera kominn á annað tilverustig. Maður aftengist öllu, sálin rennur saman við stað og stund og maður er algjörlega í núinu. Allt annað verður víðsfjarri.

Ansi er ég nú hræddur um að þessi upplifun hefði orðið öðruvísi ef nýjasta markaðsátak Íslandsstofu hefði verið komið í gang og öskur manneskju úr hátalara hefði blandast fuglasöngnum og öldugjálfrinu á þessum friðsæla stað. Þetta átak er svo yfirgengilega vitlaust að þetta er jafnvel enn heimskulegra en sú hugmynd að sýna erlendum ferðamönnum alla leynistaðina okkar í íslenskri náttúru, svo þeir geti traðkað þá niður eins og hina staðina.

Þess vegna vil ég spyrja UST: Þegar verið er að koma upp svona hljóðmengun á jafn friðsælum stöðum eins og Kálfshamarsvík, kallar það ekki á einhvers konar umhverfismat eða þarf ekki eitthvað leyfisferli að fara í gang? Var UST eitthvað inn í málinu, og ef ekki, væri þá ekki ástæða fyrir UST að skoða þetta mál?

Með bestu kveðju,
Ellert Grétarsson,
Unnandi íslenskrar náttúru.

Mynd úr kynningarmyndbandi fyrir markaðsátakið.