Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Kraftur að færast í bólusetningar á Suðurnesjum
Föstudagur 19. febrúar 2021 kl. 07:52

Kraftur að færast í bólusetningar á Suðurnesjum

segir Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarforseti á heilsugæslusviði HSS. 
Hlutfall Covid-19 bólusetninga lægst á Suðurnesjum vegna þess að meðalaldur er lægri.

„Það er aðeins að aukast krafturinn í bólusetningum hér á Suðurnesjum og lítur út fyrir að við byrjum að bólusetja elstu árgangana 80 ára og eldri í næstu viku,“ segir Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarforseti á heilsugæslusviði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Nú virðist þó berast meira bóluefni til landsins og segir Andrea að HSS sé búið að fá staðfestingu á því að stofnunin fái bóluefni í næstu viku til að halda áfram að bólusetja elstu árgangana. „Ekki hefur þó enn fengið staðfest í hvaða magni, því verðum við að sjá til hvað við komumst langt með það,“ segir hún.

Hvernig hefur bólusetningin gengið?

„Við erum tvær á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem erum svokallaðir „listamenn“ í covid bólusetningakerfinu, en orðið „listamenn“ hefur ekkert með list að gera, heldur er það nafn sem verkefnastjóri Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins fann upp fyrir þann hóp einstaklinga um allt land sem sjá um að forskrá hópa í bólusetningakerfið. Tölvukerfið sem heldur utan um bólusetningarnar er sama kerfið og heldur utan um covid sýnatökur á landamærum og á heilsugæslum um allt land, en þar er hægt að skrá fólk og senda þeim boð í sýnatökur og í bólusetningu með sms skilaboðum og strikamerki með aukenni um leið. Þetta tölvukerfi hefur létt okkur heilmikið vinnuna og gert sjálfvirknina meiri.

Við listamenn byrjuðum að safna í listana og skrá þá eftir forgangsflokki sóttvarnarlæknis í byrjun desember sl. og áttu allir forgangslistar að vera tilbúnir í kerfinu um miðjan desember, það gekk því mikið á að safna þessum upplýsingum og flokka hópana. En nú á líka að vera auðvelt að boða ýmsa hópa þegar kemur að þeirra forgangi. Listamenn geta sent út sms skilaboð með strikamerki og boðað þannig ákveðna hópa eða jafnvel einstaklinga úr hópum í bólusetningar. Embætti landlæknis hefur sett inn í kerfið árgangahópana eftir þjóðskrá, þannig munu þeir einnig setja í kerfið þá hópa sem eru í auknum áhættuhópum vegna undirliggjandi sjúkdóma, en það mun verða skilgreint hjá embættinu og það er verið að vinna þá vinnu núna.“

Hvernig er bóluefninu dreift um landið?

„Öllu bóluefni er dreift miðlægt frá Embætti landlæknis og er okkur úthlutað ákveðið magn af bóluefni í fyrir fram ákveðna hópa sem embættið stýrir. Forgangshóparnir hafa breyst aðeins frá upphaflegu reglugerðinni sem gefin var út, þó ekki meira en svo að elstu og veikustu íbúarnir voru settir ofar á listann. Við erum nú búin að bólusetja alla íbúa hjúkrunarheimila hér á Suðurnesjum og erum að klára að bólusetja alla skjólstæðinga heimahjúkrunar nú í vikunni sem er mjög ánægjulegt.

Hvers vegna hafa fæstar bólusetningar verið á Suðurnesjum?

„Ástæða fyrir því Suðurnesin eru með fæstu bólusetningarnar núna er sú að Suðurnesin er ungt samfélag, meðalaldurinn er lægri en annarsstaðar á landinu og því myndast þessi skekkja í stöplaritinu og virðist sem aðrir séu jafnvel að fá meira bóluefni.

Við erum að fá þriðju tegundina af bóluefni í þessari viku og eykur það flækjustigið aðeins, en það er mikil vinna að halda utan um alla hópana sem verða bólusettir með mismunandi bóluefni, en bóluefnin eru þannig að mislangur tími er á milli fyrri og seinni bólusetningu eftir bóluefnum og því þarf að passa uppá að allir fái rétt bóluefni, en bólusetja verður með sama bóluefni í fyrri og seinni bólusetningu. Því er gott tölvuforrit mjög mikilvægt í þeirri vinnu.

Nýjasta bóluefnið sem við erum að fá núna er bóluefni Astra Zenica en það á að bólusetja starfsfólk hjúkrunarheimila og sambýla með því bóluefni, þar sem það er ekki gefið upp fyrir eldri en 65 ára einstaklinga.“

Hvar hafið þið verið með bólusetningarnar?

„Þetta er það stórt verkefni að fleiri þurfa að koma að. Við erum búin fá mjög góða aðstöðu hjá Landhelgisgæslunni á Ásbrú til að bólusetja og höfum nú þegar bólusett nokkur hundruð manns þar. Við ættum að geta bólusett um 200 manns þar á klukkustund ef allt gengur samkvæmt áætlun hjá okkur. Í hvert sinn sem við bólusetjum höfum við nokkra hjúkrunarfræðinga, lækni, sjúkraflutningsmenn og sjúkrabíl á staðnum, enda höfum við átt mjög gott samstarf með Brunavörnum Suðurnesja, Lögreglunni og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í allri undirbúningsvinnu og á bólusetningastað.“

Hafiði fengið mikið af fyrirspurnum frá fólki vegna bólusetningar?

„Við höfum fundið fyrir því að íbúar hafa sótt fast í upplýsingar um hvenær þeir fá bólusetningu, og það hefur verið mikið hringt á HSS og sendur tölvupóstur og skilaboð í heilsuveru til að fá upplýsingar. Við skiljum þessar spurningar vel, að fólk vilji fá bólusetningu sem fyrst og geta gert einhverjar ráðstafanir að minnsta kosti vita hvenær það fái bólusetningu. Við höfum því miður ekki haft neinar upplýsingar til að gefa fólki annað en þær að það fái boð þegar kemur að þeim. Við höfum ekki þessar upplýsingar. Þetta ræðst allt af framboði af bóluefni til landsins. Þetta er ekki í okkar höndum. Við höfum fengið að vita um magn og tímasetningu bóluefna með mjög stuttum fyrirvara

Við höfum boðað fólk í bólusetningar með mjög stuttum fyrirvara, allt að sólarhring áður, jafnvel samdægurs. Bóluefnið er viðkvæmt og þegar það kemur til okkar höfum við ekki marga daga til að koma því út. Eftir blöndun á bóluefninu er hægt að nota það í 6 klukkustundir áður en það skemmist og ef fólk mætir ekki í bólusetningu og lætur ekki vita þá þarf að finna einhvern óbólusettan í snatri og koma efninu í viðkomandi.

Um daginn vorum við að bólusetja á Ásbrú um 130 einstaklinga sem voru boðaðir en þrír mættu ekki á staðinn og því voru þrír skammtar ónotaðir, þá var farið í listana góðu og hringt í 3 elstu óbólusettu íbúana á Suðurnesjum og þeir boðaðir á heilsugæsluna, þangað mættu þeir einn 97 og tveir 98 ára, eldsprækir og fengu sína fyrri bólusetningu.“

Munu allir frá boð um bólusetningu og hvernig þá?

„Það munu allir fá boð í bólusetningu, allra elstu árgangarnir fá skilaboð í síma ásamt símtali frá HSS, Þeir sem ekki erum með farsíma fá símtal frá HSS. Við munum einnig koma upplýsingum á framfæri á heimasíðu HSS hss.is og Facebook síðu stofnunarinnar. Einnig biðlum við til aðstandenda eldri íbúa að fylgjast með á samfélagsmiðlum og aðstoða við upplýsingamiðlun.

Það hefur því verið mikil áskorun að skipuleggja þessar bólusetningar til þessa. Þegar kallið kemur þarf að boða fólk í bólusetningu og til þessa hefur það talist langur fyrirvari að fá nokkra daga, það þarf að hóa í mannskap til að vinna, en við höfum verið einstaklega heppin hvað starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er tilkippilegt í svona aukavinnu þrátt fyrir að vera búið að standa vaktirnar sínar er það tilbúið að koma og aðstoða í bólusetningum með nánast engum fyrirvara.

Samhliða eru þið með sýnatökur, hvernig hefur þróunin verið þar?

„Samhliða bólusetningaverkefninu okkar höfum við á hinum kantinum sýnatökurnar og í hvert sinn sem við teljum ástandið þar vera að hægjast þá kemur eitthvað nýtt uppá. Það nýjasta á þeim vettvangi eru sýnatökur fyrir brottför af landinu og vottorð þar að auki, helst ekki eldra en 24 tíma gamalt. Það kemur alltaf eitthvað upp sem heldur okkur á tánum, enda HSS fjölbreyttur og skemmtilegur vinnustaður,“ sagði Andrea Klara.