Max Norhern Light
Max Norhern Light

Fréttir

Könnun á meðal fyrirtækja á Suðurnesjum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 10. janúar 2020 kl. 16:29

Könnun á meðal fyrirtækja á Suðurnesjum

Um þessar mundir stendur yfir könnun meðal fyrirtækja á Suðurnesjum sem gerð er af Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja í samvinnu við atvinnuþróunarfélög á landinu en þar er leitast við að skoða umhverfi fyrirtækja og framtíðarhorfur. Að sögn Dagnýjar Gísladóttur verkefnastjóra Heklunnar er slík könnun mikilvæg fyrir landshluta til þess að fylgjast með stöðu og þróun fyrirtækja á svæðinu svo hægt sé að bregðast við og koma til móts við þarfir þeirra.

„Meginmarkmið könnunarinnar er að draga fram afstöðu forsvarsmanna fyrirtækja einstakra landshluta til ýmissa þátta sem telja má meðal mikilvægustu rekstrarþátta fyrirtækja.

Niðurstöður slíkrar könnunar sem gerð var árið 2018 sýndi þá mikla bjartsýni hjá fyrirtækjum á svæðinu þar sem gert var ráð fyrir aukningu og fjölgun starfsfólks, en því miður var sú könnun gerð stuttu fyrir hrun WOW flugvélagsins sem skekkti að nokkru myndina. En það er samt ljóst að það er mikil hugur í fyrirtækjum á svæðinu og margir vaxtarmöguleikar, þá sérstaklega í ferðaþjónustu.“

Að sögn Dagnýjar er mikilvægt að fá slíkar upplýsingar til að vinna með og eru fyrirtæki hvött til þess að taka þátt í könnuninni sem send hefur verið til þeirra rafrænt.

„Það vantar enn nokkuð upp á að við náum lágmarkssvörun fyrir könnunina í ár en gera þarf slíka könnun í fjögur ár svo eitthvað sé mark á takandi. Því viljum við hvetja sem flest fyrirtæki til að vera með. Það tekur aðeins örfáar mínútur að svara könnuninni en ávinningurinn er mikill, þá ekki síst fyrir fyrirtæki.“

Niðurstöður fyrirtækjakönnunarinnar 2018 er hægt að sjá á myndrænan og gagnvirkan hátt hér (https://heklan.data.is/account/public-report?id=f5b1ad42-ba5f-4018-afcf-2261581fd5e6), en þar má einnig sjá gagnlegar upplýsingar um fyrirtæki á Suðurnesjum.