Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Keflavíkurflugvöllur hlýtur ASQ-þjónustuverðlaun ACI fimmta árið í röð
Mánudagur 6. mars 2023 kl. 10:28

Keflavíkurflugvöllur hlýtur ASQ-þjónustuverðlaun ACI fimmta árið í röð

Keflavíkurflugvöllur er í hópi bestu flugvalla 2022 í Evrópu í sínum stærðarflokki (5-15 milljónir farþega á ári) þegar kemur að þjónustugæðum. Þetta er niðurstaða alþjóðlegrar þjónustukönnunar á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) sem er framkvæmd  á tæplega 300 flugvöllum víðs vegar um heiminn ár hvert.

Keflavíkurflugvöllur hefur tekið þátt í þjónustukönnuninni, Airport Service Quality Programme (ASQ), í nærri tvo áratugi og hefur völlurinn hlotið þessa viðurkenningu ríflega tíu sinnum og nú fimmta árið í röð.

Public deli
Public deli

Keflavíkurflugvöllur er einn af þeim sjö evrópsku flugvöllum í sínum flokki sem fá hæstu meðaleinkunn í könnuninni og fær því þessa viðurkenningu. Aðrir flugvellir sem fengu viðurkenningu í sama flokki eru Alþjóðaflugvöllurinn á Möltu, Ankara Esenboga flugvöllur í Tyrklandi, Belgrad Nikola Tesla flugvöllur í Serbíu, Flugvöllurinn í Porto, Milan Bergamo flugvöllur á Ítalíu og Þessalóníku flugvöllur í Grikklandi.

Þjónustukönnun ACI, Airport Service Quality Programme eða ASQ er virtasta og marktækasta mæling sem gerð er á þjónustugæðum flugvalla. Við framkvæmd hennar eru farþegar á flugvöllum um allan heim spurðir staðlaðra spurninga um 31 þjónustuþátt auk þess sem spurt er um heildaránægju og heildarupplifun af flugvellinum og líðan farþega þegar könnunin er framkvæmd í flugstöðinni. Samanburðurinn er því yfirgripsmikill og samræmdur, bæði milli flugvalla og á milli ára. Könnunin er gerð á 291 flugvelli um allan heim, þar af 109 í Evrópu. Keflavíkurflugvöllur er á meðal 35 flugvalla í sínum flokki, þ.e. flokki evrópskra flugvalla með 5-15 milljónir farþega á ári.

„Með þessari viðurkenningu erum við og allir aðrir rekstraraðilar í flugvallarsamfélaginu á Keflavíkurflugvelli að uppskera eftir því sem hefur verið sáð á síðustu árum,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Keflavíkurflugvöllur er dæmdur út frá allri starfsemi sem þar fer fram, hvort sem það á við það sem við hjá Isavia berum ábyrgð á eða það sem m.a. lögregla, tollur eða rekstraraðilar veitingastaða, verslana, flugfélaga, rútufyrirtækja eða bílaleiga sjá um. Við tökum stolt og hrærð við þessari viðurkenningu sem sýnir að þrátt fyrir framkvæmdir og umferð á álagstímum hefur okkur gengið vel að veita góða þjónustu.“

Sveinbjörn segir framtíðina gefa Keflavíkurflugvelli tækifæri til að þjónusta fólk enn betur. „Þær framkvæmdir sem nú standa yfir og sú uppbygging sem fram undan er á næstu árum munu gera okkur fært að þjónusta fólk enn betur. Stækkun flugvallarins er fyrir farþega og flugvallarsamfélagið og við getum ekki beðið eftir að bjóða enn betur.“

„Farþeginn er miðpunktur alls og það endurspeglast í Airport Service Quality (ASQ) verkefninu,“ segir Luis Felipe de Oliveira, framkvæmdastjóri ACI World og bætir við að ferðalangar hafi lýst þeirri skoðun sinni að þessir flugvellir hafi náð árangri í að veita framúrskarandi farþegaupplifun. „ASQ verkefnið mælir ekki aðeins og setur viðmið heldur gefur það flugvöllum af hvaða stærð sem er tækifæri til að læra og gera betur svo þeir nái nýjum hæðum í farþegaupplifun.“

ACI tilkynnti um niðurstöðurnar í dag en verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á þjónusturáðstefnu samtakanna í Incheon-borg í Suður-Kóreu í september.