Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Íbúum fjölgað um 21,7% síðan 2016
Frá aðalfundi SSS 8.-9. október.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 7. október 2021 kl. 14:06

Íbúum fjölgað um 21,7% síðan 2016

– en fjárveitingar ríkisins fylgja ekki þeirri þróun

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hvetur ríkisvaldið til að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í ályktun sem lögð fram á 45. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 21,7% á árunum 2016 til 2021 en landsmeðaltalið er 10,6%. Því miður hafa fjárveitingar til heilbrigðismála á Suðurnesjum ekki fylgt þeirri þróun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum bendir á að í heilbrigðisstefnu ríkisins til ársins 2030, kemur fram að heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum. Byggja þarf upp þjónustu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja í öllum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum svo hún geti tekist á við verkefnin sem henni er ætlað að sinna samkvæmt heilbrigðisstefnu ríkisins.

Bent er á að hægt er að byggja upp þjónustu á Suðurnesjum sem gæti létt undir með Landspítalanum eða að færa sérhæfða þjónustu til Suðurnesja og byggja þannig undir starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

Jafnframt er kallað eftir stefnumótun til framtíðar í hjúkrunar- og dagdvalarrýmum á Suðurnesjum og landinu öllu og að slík stefna feli í sér reglur um fjölda rýma miðað við íbúafjölda.